Mánaðarskipt greinasafn: október 2009

Raunir B-manns 3: Átakið

É g er kominn í átak. Fyrsta skrefið er að minnka snúsfjölda niður í eitt á morgni. Vekjaraklukkan byrjar að hringja klukkan átta og ég á sem sagt að vera kominn á lappir klukkan níu mínútur yfir. Nema á mánudögum, þá má ég snúsa tvisvar. Umbreytingin er hafin og ég stefni á að vera orðinn A-maður um áramót.

Átakið hófst á miðvikudegi og árangurinn var undraverður. Þrjá daga í röð var ég kominn á lappir á tilsettum tíma. Mér tókst að hella upp á kaffi, fara í sturtu, taka vítamín, borða ristað brauð og drekka appelsínusafa áður en ég lagði af stað í vinnuna. Með öðrum orðum: Mér býður við sjálfum mér. Það er erfitt að segja bless við sjálfan sig. Það var eitthvað spennandi við að fara að sofa án þess að vita hvenær mér tækist að rífa mig á fætur. Ég var tifandi tímasprengja og vissi aldrei hversu mörg snúsin yrðu. Var ég að fara að snúsa fimm sinnum? Sjö sinnum? Eða var ég að fara að slökkva á báðum vekjaraklukkunum og sofa þar til yfirmað- urinn hringdi – með þrútnar æðar af ólgandi bræði?

Í dag er spennan fólgin í óvissunni. Ég er ekki byrjaður að fagna sigri og B-mað- urinn gæti bankað á dyrnar hvenær sem er; svangur, þreyttur og úrillur. Eitt veit ég þó, það að vinna frá níu til fimm er tærasta form fasisma í lífi B-manns, sem þarf ekki að líða annað ofbeldi. Þegar klukkan slær níu á Íslandi á veturna er ekki kominn dagur. Það er staðreynd. Við mætum í vinnu á næturnar í staðinn fyrir að breyta klukkunni þannig að það verði komin birtuglæta þegar vekjaraklukkan hringir.

Auglýsingar

Raunir B-manns 2: Snúsbölvunin

Þegar ég rumska við skerandi óp vekjaraklukkunnar líður mér eins og hræddri skepnu sem hefur tölt í sakleysi sínu út á þjóðveg. Hljóðið færist nær og ég rétt næ að líta upp áður en … BÚMM! Ég ýti á takkann og fell í rúmið. Steindauður eins og skepnan sem skilin var eftir.

Eins og hörðustu eiturlyf er snústakkinn fullkomlega ill uppfinning. Bölvun sem hönnuð er til að minnka lífsgæði fólks á kerfisbundinn hátt. Maður ánetjast snústakkanum eins og heróíni og getur ekki hætt án utanaðkomandi hjálpar. Loks breytist maður í fíkil og fíkillinn breytist í lygamörð sem gerir hvað sem er fyrir næsta skammt.

Það sem gerir snústakkann margslungnari en heróín er að hann er ókeypis í notkun. Maður getur snúsað eins oft og maður vill án þess að eiga á hættu að borað verði í hnéskeljar manns í köldum, yfirgefnum sumarbústöðum. Í staðinn fyrir að ráðast á miðtaugakerfið eins og heróín rústar snústakkinn fíklinum andlega og minnkar möguleika hans á því að halda vinnu og félagsskap við annað fólk.

Í stuttu máli: Snústakkinn er andlegt hertól djöfulsins sem hefur dramatísk áhrif á líf þess sem ánetjast. Hann er eplið og ég er bæði Adam og Eva. Ég má ekki ýta, en geri það samt fyrir níu mínútur. Níu unaðslegar mínútur af svefndrukknum draumförum sem enda alltaf eins. Heimska skepnan sem ég er töltir út á þjóðveg – þrátt fyrir að heyra í vekjaraklukkunni æpa í fjarska áður en … BÚMM!

Raunir B-manns 1: Fæðingin

É g er B-maður. Mér líður best seint á kvöldin og vil helst ekki fara að sofa fyrr en löngu eftir miðnætti. Morgnarnir eru sérkafli. Og þegar ég segi „sérkafli“ meina ég „óyfirstíganleg þrekraun“. Jerry Seinfeld hitti naglann á krullað höfuðið þegar hann líkti því að vakna við að fæðast aftur. Það er einmitt það sem hver morgunn í mínu lífi er: Fæðing.

Svefn í eigin rúmi er að mínu mati öruggasta tilfinning í heimi. Þar líður mér eins og fóstri í maga konu sem hvorki reykir né hefur ánetjast vímuefnum. Sængin gegnir sama hlutverki og volgt legið, þó að það sé vissulega léttir að fólk safnist ekki í kringum mig og fagni þegar ég sparka. Þegar vekjaraklukkan hringir er tími til að koma í heiminn – hvort sem mér líkar það betur eða verr. Þegar ég opna augun er eins og ég sé sjái ljós í fyrsta skipti. Ég grenja eins og kornabarn á meðan grimm örlögin toga mig undan sænginni og eftir stend ég nakinn, sveittur og úrillur.

Ég er ekki svo heppinn að fá huggun í faðmi konu á morgnana, svo að ég verð að þroskast á ógnarhraða og koma mér í vinnu. Erfiðast er að læra að ganga, en málleysið háir mér ekki fyrstu mínúturnar. Oft dreymir mig um að gera þarfir mínar í bleiu þessar fyrstu mínútur lífs míns, en ég finn yfirleitt klósettið áður en svo veruleikafirrtar hugmyndir ná fram að ganga – Guði sé lof.

Þetta geng ég í gegnum á hverjum morgni sem ég þarf að vakna við vekjaraklukkuna – sem ég kýs nú að kalla lífsklukkuna. Þegar lífsklukkan hringir er tími til að lifna við, þrátt fyrir hávær mótmæli af minni hálfu og þrátt fyrir að ég sé aldrei tilbúinn að takast á við það sem bíður mín.

%d bloggurum líkar þetta: