Mánaðarskipt greinasafn: maí 2012

Lokaorð um Nasa

Í byrjun júní á að loka skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll. Nú stendur yfir hönnunarsamkeppni um skipulag svæðisins, sem er eflaust eftirsóttasti landskiki landsins fyrir utan Grímsstaði á Fjöllum. Kaupsýslumaður á húsið og vill ráðstafa því öðruvísi en það er gert í dag, en það á eftir að koma í ljós hvers konar hús rís á svæðinu. Tónlistarmenn hafa lagt hart að borginni að bjarga Nasa, en erfitt er að sjá hvernig á að fara að því án þess að punga út mjög mörgum milljónum af almannafé.

Nasa er frábær tónleikastaður. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja ásamt því að umkomuleiðirnar af rúmu dansgólfinu eru fleiri en gengur og gerist. Draumur tónlistarunnandans. Fyrir listamennina er staðurinn ekki síðri. Sviðið er rúmgott og í hæfilega mikilli hæð, hljóðkerfið er kraftmikið og baksviðsaðstaðan kyrfilega lokuð af. Sjálfur hef ég sótt staðinn sem áhorfandi og flytjandi (þó ég hafi reyndar aldrei staðið á sviði fyrir framan hóp af jafn hliðhollum áhorfendum og Páll Óskar eða Mugison) og get því auðveldlega sett mig í spor þeirra sem mótmæla lokun staðarins.

Eins sárt og það er að horfa upp á jafn frábæran tónleikastað hverfa, þá efast ég um að ekkert komi í staðinn. Nasa hefur verið til í núverandi mynd í tæp ellefu ár. Fullt af góðum hljómsveitum urðu til áður en Nasa opnaði og þær höfðu fullt af stöðum til að koma fram á. Þannig verður það, hvort sem það verður annað hótel við Austurvöll eða ekki.

Auðvitað verður ákveðin stemning til í húsum, en steypan, viðurinn, málmurinn og glerið á aðeins takmarkaðan þátt í því. Það er fyrst og fremst fólkið, sem mætir á tónleika, sem skapar stemninguna ásamt listamönnunum sem koma fram. Ef Nasa verður rifið, þá skapar sama fólk sömu stemningu einhvers staðar annars staðar. Það er staðreynd, sama hversu mikla yfirburði Nasa hefur í blómstrandi tónleikasenu landsins.

Margir einblína á hvað kemur í staðinn og gagnrýna hugmyndir um mögulegan hótelrekstur. Ný hótel dreifast um Reykjavík á hraða njólans og kaupsýslumenn virðast sjá endalaus viðskiptatækifæri í slíkum rekstri. En gæti ekki verið að einhver svari háværu kalli neytenda um tónleikastað sem er sveittari en Rosenberg, með stemninguna af Gamla Gauk, stærri en Ellefan, minni en Hafnarhúsið, jafn kósí og Iðnó og ekki eins hress og Faktorý? Soldið eins og Harpan nema ekki eins stór, brothætt og … fjármögnuð af almenningi?

Auglýsingar
Merkt , , ,

Stóra bensínsamsærið

Bíllinn minn er á verkstæði og ég hef því neyðst til að reiða mig á velviljaða samstarfsfélaga til að koma mér í og úr vinnu. Í einni af þessum ferðum trúði vinnufélagi minn mér fyrir því að hann brysti í grát í hvert skipti sem hann tæki bensín. Titrandi röddin og tárvot augun gáfu til kynna að honum var alvara, en mér tókst því miður ekki að hughreysta hann vegna þess að ég veit að bensínverð lækkar aldrei.

Bensínbransinn er eini bransi heims þar sem allir smásalar sitja við sama borð. Enginn getur samið um betra verð en samkeppnisaðilinn, sem gerir smásölu á bensíni pínlega fyrirsjáanlega. Heimsmarkaðsverð hækkar og í kjölfarið hækkar verðið á næstu bensínstöð. Ef heimsmarkaðsverð lækkar gerist hins vegar lítið.

Mögulega eru eðlilegar skýringar að baki, en ég held að þetta sé risastórt samsæri. Samsæri sem helst í hendur við minni samsæri — dælurnar ganga til dæmis allt of hægt svo við teljum okkur fá fullt fyrir peninginn. Í dag er maður jafnlengi að dæla fyrir 3.000 kall og áður þó maður fái helmingi minna bensín. Og af hverju virka tittirnir sem halda dælunum gangandi aldrei á sjálfsafgreiðslustöðvunum?

Einhverjir telja sig geta breytt þessu og nú hefur hópur bláeygra þingmanna Sjálfstæðisflokksins lagt til að dregið verði úr álögum á bensín svo hægt verði að lækka lítraverðið niður í 200 kall. Þessi vaski hópur telur sem sagt að bisnessmenn, sem vita að fólk er reiðubúið að borga tæpar 260 krónur fyrir lítra af bensíni, lækki verðið um tæpan fjórðung si svona.

Það er fyndið. Rosalega fyndið. Það er svo fyndið að ég rak upp tryllingslega hláturroku þegar ég las ofangreinda málsgrein yfir skömmu eftir að ég skrifaði hana. Ég hló ekki vegna þess að ég er svo fyndinn gaur með framúrskarandi vald á íslenskri tungu og óskeikula þekkingu á húmor. Nei, ég hló vegna þess að það er með ólíkindum að hópur kapítalista þekki aðra kapítalista jafn sorglega illa og raun ber vitni.

Að minni álögur lækki bensínverð til lengri tíma er jafn ólíklegt og að hópurinn sem lagði tillöguna fram smíði tímavél, smali allri þjóðinni um borð og flytji hana til ársins 2005. Þá kostaði bensínlítrinn 102 krónur. Góða ferð, asnar.

Merkt
%d bloggurum líkar þetta: