Mánaðarskipt greinasafn: júní 2012

Mannlegir skildir í Eyjum

Að eiga lítil systkini getur komið sér vel. Þau má kúga til að dýfa fætinum í vatnið áður en maður fer sjálfur ofan í og hóta ofbeldi ef þau taka ekki á sig sökina fyrir að borða síðustu tertusneiðina. Þessar elskur bogna auðveldlega undan valdi sem er beitt í krafti andlegra yfirburða. Þetta lærði ég af biturri reynslu, enda alinn upp í stöðugum ótta við þrjú ógnvænleg og risavaxin systkini.

Litlu systkinin eru sem sagt neydd til að stökkva á handsprengjuna fyrir þau eldri og þannig notuð sem mannlegir skildir. Svo við höldum áfram með þessa ósmekklegu vísun í stríðsrekstur, þá eru fjölmörg dæmi til um að slíkir skildir séu notaðir í bardögum – þar sem óbreyttum borgurum er komið fyrir í fremstu víglínu til að veita æðri mönnum skjól. Borgararnir eru oftast neyddir til að taka að sér þetta óeigingjarna hlutverk en tilgangurinn hefur einnig áróðursgildi þar sem tala látinna óbreyttra borgara vex óhjákvæmilega við aðgerðina. Þannig er höfðað til samvisku óvinarins og reynt að letja hann í árásum sínum.

Mannlegir skildir hafa einnig verið nýttir í íslenskum áróðursstríðum með eftirtektarverðum árangri. Sjómönnum var att út á vígvöllinn í byrjun júní til að mótmæla meintri tekjuskerðingu á meðan kvótagreifarnir dyttuðu að höllum sínum og keyptu nýjar handa erfingjunum. Í vikunni settu svo stjórnarmenn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum upp mannlegan skjöld til að verjast árásum ríkisstjórnarinnar. 41 starfsmanni var fórnað og gott ef nýjasti dallurinn var ekki settur á söluskrá. Stjórnvöld fengu þau skilaboð að aðgerðirnar væru upp á líf og dauða; nauðsynlegar til að halda fyrirtækinu gangandi.

Þegar aðgerðirnar voru kynntar láðist stjórnendum vinnslustöðvarinnar að nefna að til stendur að greiða eigendum 850 milljónir í arð, sem var samþykkt á fimmtudagskvöld. Það er 350 milljónum meira en í fyrra. Sem sagt, á tveimur árum hefur Vinnslustöðin skilað eigendum sínum 1.350 milljónum króna í arð. Ef við myndum skipta arðinum í hundraðkalla myndi staflinn skaga 27 kílómetra til himins. Við þyrftum að stafla 32 Burj Khalifa-turnum, sem er hæsta bygging heims, hverjum ofan á annan til að koma fyrir síðasta hundraðkallinum. Hallgrímskirkjuturnarnir þyrftu hins vegar að vera 362.

Guð blessi þessa menn. Fyrir þau sem vita ekki hvað arður er, þá lítur hann út eins og grænu tölurnar í einkabankanum þínum. Í þessu tilviki er þó um að ræða talsvert fleiri núll en þú munt nokkurn tíma sjá.

Auglýsingar
Merkt , , ,

Tom Cruise og allir hinir

Tom Cruise kom til landsins í vikunni. Hann leikur aðalhlutverkið í stórmyndinni Oblivion, sem verður tekin upp að hluta hér á landi í sumar. Fjölmiðlar fjalla um hvert fótmál leikarans og ljóstra upp um dvalarstað hans með slíkri nákvæmni að ráðvilltar smástúlkur hugsa sér gott til glóðarinnar og mæta jafnvel á staðinn í von um að fá að baða sig í frægðarljóma stórstjörnunnar.

Er ekki hægt að láta manninn í friði? Þetta minnir mig á þegar ég var að spila á Iceland Airwaves og beið baksviðs eftir söngkonunni og Hollywood-stjörnunni Juliette Lewis, fyrrverandi kærustu Brad Pitt, sem var væntanleg ásamt hljómsveit. Risavaxnir dyraverðirnir þurftu ekki að segja mér tvisvar að láta mig hverfa. Ég segi nú bara eins og Iggy Pop sagði við mig í Leifsstöð árið 2006: „Góðan daginn!“

Við verðum að læra að umgangast fræga fólkið. Mark Wahlberg hefði t.d. skellt á mig þegar ég tók símaviðtal við hann á dögunum, ef ég hefði ekki kunnað að haga mér. Þegar ég var búinn að fá bráðnauðsynlegar upplýsingar um kvikmyndina Contraband lét ég mér nægja að spjalla í tíu til tuttugu mínútur áður en ég hleypti honum aftur í vinnuna. Hann var reyndar örlítið þurr á manninn og ég sagði Balta (Baltasar Kormáki leikstjóra) það en Wahlberg talaði reyndar vel um Darra (Ólaf Darra leikara).

Frægt fólk verður að geta átt athvarf á Íslandi — griðastað sem það getur heimsótt og fengið að vera í friði. Það er ekkert kúl við að sitja um stjörnur í von um að fá að líta þær augum. Leikarinn Viggo Mortensen var alveg sammála mér um það þegar ég hitti hann á Patró fyrir tveimur árum. Þar var hann algjörlega látinn í friði, enda kunna Patreksfirðingar að taka á móti fólki! — og elda fisk, en Viggo gæddi sér einmitt á þorski og horfði á leik í Meistaradeildinni.

Loks þurfum við að láta slúðrið eiga sig. Hvað kemur það okkur við þótt sumar stjörnur kjósi að kanna lystisemdir holdsins á meðan á dvöl þeirra á landinu stendur? Þó að söngvarinn í hljómsveitinni Incubus hafi lent í óvæntu ástarævintýri í sturtu Laugardalshallar og að gítarleikari Korn hafi glatað gítar eftir villta teiti sem fór úr böndunum. Það er algjör óþarfi að dreifa slíku slúðri. Gerard Butler, kviðmágur minn, myndi taka undir það.

Merkt , , , , , , , ,

Rifist um snittur

Í sturlaðri umræðu um málskotsrétt og hlutverk hefur gleymst að ræða það sem skiptir máli: Dagleg störf forseta Íslands.

Hvernig verður opinberri heimsókn á Vestfirði háttað sumarið 2013? Ætlar forsetinn að þiggja gómsætar kleinur? Eða kallar Nýja Ísland á forseta sem sneiðir hjá kolvetnum? Kjósendur eiga einnig skilið að vita hvernig tekið verður á móti erlendum þjóðhöfðingjum. Verða þeir kysstir eða verður þétt handaband látið duga? Verður mögulega tekið upp á því að bjóða upp á innileg faðmlög?

Dagleg störf eru nefnilega það sem embættið snýst um, enda hefur málskotsrétturinn bara verið notaður þrisvar í lýðveldissögunni. Það þarf að koma út snittum á Bessastöðum nánast daglega, ásamt því að skrifa ræður sem þarf að flytja við hin ýmsu tilefni, eins og kemur í ljós þegar dagskrá forsetans er skoðuð:

Í janúar var forsetinn til dæmis heiðursgestur við setningu Íslandsmóts barna í skák ásamt því að flytja ávarp á ráðstefnu norrænna jarðfræðinga. Í febrúar tók hann á móti félögum í Rótarýklúbbnum Görðum, sótti afmælishóf Klúbbs matreiðslumeistara og afhenti heiðursverðlaun Eddunnar. Í mars var forsetinn viðstaddur lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarborg og í apríl flutti hann ávarp í upphafi heimsmeistaramóts í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal.

Í maí var lokakeppni á sundmóti í tilefni af 85 ára afmæli Sundfélagsins Ægis meðal annars á dagskránni ásamt því að taka á móti hópi frá Kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu og ræða um sögu Bessastaða, áhrif menningar og náttúru …

Þetta er mjög lítill hluti af dagskrá forsetans, sem felur að mestu í sér að sækja keppnir og ráðstefnur, flytja fullt af ávörpum og taka á móti ógrynni af gestum. Málin eru mismikilvæg en eiga þó sameiginlegt að það er algjör óþarfi að missa sig yfir þeim.
Hvorki kjósendur né frambjóðendur þurfa nefnilega að rífast um hvernig embættið á að vera. Frambjóðandinn sem fær flest atkvæði ákveður það sjálfur þegar hann verður kosinn. Ólafur var öðruvísi forseti en Vigdís og það stöðvaði hann enginn. Þægilegast væri að frambjóðendurnir myndu birta einhvers konar stefnuskrá á netinu, leyfa fólki að taka upplýsta ákvörðun og loka á sér snittuholunum fram að kjördegi, svona fyrst þeir geta ekki spjallað saman á málefnalegum nótum án dylgja og aðdróttana.

Merkt , , ,
%d bloggurum líkar þetta: