Mánaðarskipt greinasafn: ágúst 2012

Afbrotaferillinn

Búast má við mikilli hörku í stjórnmálunum í vetur og þeir sem taka þátt í kosningabaráttunni gætu átt von á því að beinagrindum verði rutt úr skápum þeirra af miklu afli. Ég tók nýlega að mér framkvæmdastjórastöðu Bjartrar framtíðar, sem er nýtt stjórnmálaafl stofnað af Heiðu Kristínu Helgadóttur, Guðmundi Steingrímssyni og fleirum. Ég hef aldrei áður komið nálægt stjórnmálum og ákvað því að taka forskot á sæluna, opna skápinn, dusta rykið af beinagrindunum og fara yfir afbrotaferilinn.

Glæpur sem ég framdi á barnsaldri hefur ávallt setið í mér. Ég var staddur í leikfangadeild Kaupfélags Árnesinga þegar ég finn stauk af Smartísi milli fjarstýrðra bíla. Hann var óopnaður og ég ríf hann upp og háma í mig innihaldið. Þetta var að sjálfsögðu hreinn og klár þjófnaður en ég réttlætti þetta fyrir sjálfum mér þannig að staukurinn hafi verið á röngum stað í búðinni. Það þarf ekki sérfræðing til að sjá að þessi rök héldu ekki vatni.

Ég hef líka verið handtekinn. Morguninn eftir fjör átti ég erindi úr miðbænum og fór því á bíl. Ég fann ekki fyrir því að hafa drukkið áfengi kvöldið áður og taldi því óhætt að aka án þess að stofna lífi mínu og annarra í hættu. Þegar ég renni svo í hlaðið heima eftir rúntinn sé ég tvo lögreglumenn koma gangandi. Þeir báðu mig vinsamlegast um að blása. Græjan fór á flug og ég fylgdist hissa með. „Jáhh! Þú ert handtekinn. Vegna gruns um ölvun við akstur,“ sagði annar lögregluþjónninn, furðuhress. Ég fór því með þeim niður á stöð þar sem ég var látinn blása í stærri græju sem hefur skipt blóðprufunni út. Hún sýndi hins vegar að ég var innan löglegra marka og ég gekk sigri hrósandi út.

Ég hef einnig verið sektaður fyrir að fara yfir á rauðu ljósi. Það var um miðja nótt og ég kenni óþolinmæði minni um. Þá hef ég tvisvar verið sektaður fyrir hraðakstur. Í annað skipti ók ég á 107 kílómetra hraða og hitt á 109.

Alvarlegasti glæpurinn er eflaust innbrot fyrir tæpum áratug. Þá klifraði ég upp á þriðju hæð Hótels Selfoss til að komast inn á ball Kvennaskólans. Ég var rétt um tvítugt og hélt að einhvers konar útópía biði mín inni en nóg var að endurtaka nafn skólans í höfði mínu til að rökstyðja það. Fyrir lipran ungan mann var þetta lítið mál og þegar inn var komið tók við mikið fjör á dansgólfinu – eða alveg þangað til dyraverðirnir sáu að leðurjakkakklæddur, síðhærður drengur átti ekki heima þarna og hentu honum út í bókstaflegri merkingu. Alveg eins og í teiknimyndunum.

Auglýsingar
Merkt , , , , , ,
%d bloggurum líkar þetta: