Mánaðarskipt greinasafn: september 2012

Meistaramánuður 2012

Ætla að taka þátt í meistaramánuði í ár og blogga um þrekraunina hér. Hef aldrei tekið þátt og ætla því að setja mér fá en raunsæ markmið. Sé fram á að það verði erfiðast að vera kominn á lappir klukkan átta á hverjum morgni ásamt því að sleppa öllu nammi. Er líka mikill helgarsælkeri og hlakka ekki til pitsulausra sunnudaga.

En hérna eru markmiðin í sjö liðum:

#1. Ekkert áfengi 
Drekk eiginlega aldrei á virkum dögum. Ætla að henda laugardögunum líka út í október og ekki bragða sopa af bjór eða öðrum yndislegum áfengum veigum.

# 2. Ekkert gos
Er hættur að drekka gos en fæ mér stundum kók með pitsu. Ætla að sleppa því. Það verður ekkert mál.

# 3. Ekkert nammi
Borða ekki mikið nammi en finnst það ógeðslega gott. Laugardags-Snickersið verður að bíða þar til október er á enda, rétt eins og föstudags-Þristurinn og sunnudagsísbíltúrinn.

#4. Hollur matur
Er frekar duglegur í holla matnum á virkum dögum en missi mig um helgar. Hyggst taka matarræðið föstum tökum. Ætla að elda hollan mat einu sinni til þrisvar í viku og borða meira af ávöxtum og grænmeti. Skyndibiti skal vera hollur; Serrano, Núðluskálin, Yummi Yummi og Gló eru t.d. í lagi.

#5. Mikil hreyfing
Fer þegar í Víkingaþrek í Mjölni fjórum sinnum í viku og körfubolta að minnsta kosti einu sinni í viku. Ætla að halda mínu striki og reyna að ná eftirfarandi markmiðum:
– Bæta mig í hnébeygju, dauðum pressum og vinna almennt með meiri þyngdir.
– Stökkva hærra og hlaupa hraðar.
– Taka 180 kíló í réttstöðulyftu. Á 170 en hef ekki bætt mig lengi.

#6. Ekkert snooze
Ég fer á lappir um níu en ætla að rífa mig upp þegar klukkan hringir klukkan 8. Er mikill B-maður og þetta verður því mikil þrekraun. Ætla að elda hafragraut á hverjum morgni ásamt því að taka lýsi og borða prótín. Þetta krefst þess einnig að ég fari fyrr að sofa og takmarkið er að vera kominn undir sæng klukkan hálf tólf.

#7. 31 góðverk
Ætla að gera að meðaltali eitt góðverk á dag. Stór og smá. Eflaust aðallega smá. Getur verið allt frá því að setja pening í ABC-baukinn eða hjálpa gamalmenni yfir götu.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: