Mánaðarskipt greinasafn: maí 2013

Tossinn

Við erum loksins byrjuð að tala um brottfall úr skólakerfinu. Skýrslur sýna að vandinn er alvarlegur og á Stöð 2 í gær hóf göngu sína áhugaverður þáttur sem kallast Tossarnir og fjallar um menntakerfið frá sjónarhorni þeirra sem helltust úr lestinni. Hlutfall þeirra sem byrja í framhaldsskóla en ljúka ekki námi er nefnilega hátt hér á landi miðað við löndin sem við berum okkur saman við. Sjálfur er ég tossi. Ég kláraði ekki framhaldsskóla. Ég byrjaði, lærði stærðfræði, íslensku, dönsku og ensku. Smá í frönsku. Féll í hinu og þessu. Svo þróaðist þetta út í að ég valdi bara auðveld fög sem ég hafði gaman að: Matreiðslu, fjölmiðlafræði, kvikmyndatöku og klippingu.

Ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvað ég vildi gera á þessum tíma og námið sem var í boði var ekki til þess fallið að hjálpa mér við ákvörðunartökuna. Ég get samt að sjálfsögðu sjálfum mér um kennt þar sem það var fyrst og fremst fullkomið áhugaleysi mitt sem varð til þess að ég hætti skóla fyrir tvítugt, eftir nokkrar annir í Fjölbrautaskóla Suðurlands og eina önn í grafískri miðlun í Iðnskólanum í Reykjavík. Við tók ekkert og ég var atvinnulaus þegar atvinnuleysi á Íslandi mældist í styrkleika pilsners.

Svo kom hálfgert leiðindartímabil. Ég vann aðra hverja helgi á Hróa hetti á Selfossi og þáði skertar atvinnuleysisbætur ofan á kaupið. Vinnumálastofnun bauð mér að mæta í hin og þessi atvinnuviðtöl sem ég hafði takmarkaðan áhuga á en sem betur fer býður kerfið fólki ekki upp á að hafna slíkum boðum endalaust. Ég fékk því á endanum val: Annað hvort myndi ég þiggja starf hjá HP kökugerð, við að fletja út flatkökur á nóttinni eða finna aðra vinnu sjálfur. Þrátt fyrir B-mennsku mína hafði ég ekki áhuga á næturvinnunni og fann því tvö spennandi störf til að sækja um: Sem námsráðgjafi í Vallaskóla og blaðamaður á Glugganum á Selfossi. Ég fékk hið síðarnefnda.

Það var sem sagt tilviljun sem réði því að ég fann starfsvettvang sem hentaði mér. Í kjölfarið starfaði ég við fjölmiðla í átta ár — fór frá Glugganum yfir í umbrotið á Blaðinu í Reykjavík og starfaði þar undir fimm ritstjórum, færði mig meira og meira yfir í fréttaskrif og endaði yfir dægurmálakaflanum þegar Blaðið breyttist í 24 stundir. Tók svo við sem ritstjóri Monitors, þegar það var mánaðarblað og ritstýrði því í góðæri og kreppu þangað til mér bauðst starf á Fréttablaðinu árið 2009. Endaði sem fréttastjóri þar og ákvað loks að breyta til í ágúst í fyrra þegar ég tók við framkvæmdastjórastöðu í Bjartri framtíð.

Menntun mín hefur sem sagt nánast eingöngu farið fram á vinnumarkaðnum og ég hef haft frábæra kennara. Þið vitið hver þið eruð. Málið er samt að ég var heppinn. Einhvern veginn datt ég inn í starf sem gaf mér nánast endalausa möguleika til að vaxa. Starf sem menntaði mig á þeim sviðum sem ég er sterkur og var í þokkabót fjandi skemmtilegt. Svoleiðis á skóli einmitt að vera og því miður er hann ekki þannig fyrir alla sem þó vilja læra.

Lausnin hlýtur að vera fjölbreytni. En fyrst þurfum við samt að tala um vandamálið og tala við vandamálið: Þau sem vilja læra en finna sig af einhverjum ástæðum ekki inni í kerfinu. Passa ekki í kassann.

Auglýsingar

Nauðgarar líta ekkert öðruvísi út en aðrir

Á umbúðunum sem Subway-bátunum er pakkað inn í er texti sem varar mann við því að báturinn gæti reynst gríðarlega heitur (e. extremely hot). Aðvörunin baktryggir fyrirtækið ef óheppinn viðskiptavinur hlýtur annars stigs bruna eftir að hafa bitið of snemma í ristaða skinkubátinn. Leiða má líkur að því að einmitt það hafi einhvern tíma gerst þó ég hafi reyndar aldrei fengið slíkan kjarnorkukafbát.

Viðvaranir sem þessar eru sjaldnast ástæðulausar. Ég hugsaði um það þegar ég las fréttina um gott framtak nemenda við Háskólann í Reykjavík sem vinna að þróun lítils kubbs sem ætlað er að lýsa skæru ljósi komist hann í snertingu við nauðgunarlyf. Kubbinn kalla þau safeCube og vonast hópurinn til að koma honum á markað innan skamms. Ástæðan fyrir því að nemendurnir tóku málin í sínar hendur er sú að sorglega margir stunda að lauma lyfjum í glös ókunnugs fólks, oftast kvenna, í von um að nýta sér ástand viðkomandi í kjölfarið.

Það er hræðilegt að safeCube þurfi að vera til — að svo margir hafi byrlað fólki ólyfjan að hugvitsfólk vinni að leiðum til að ljóstra upp um óþverraskapinn. Spáið í hversu margir siðblindir aumingjar eru þarna úti ef málið er komið á þetta vísindalega stig.

Þessi ömurlegi veruleiki sló mig í andlitið á dögunum þegar ég sat á bar með félögum mínum. Ung stelpa pantaði sér drykk, sem barþjónninn blandaði. Kortinu hennar var synjað svo að hún sagðist ætla að sækja annað og skildi glasið eftir á barnum. Skömmu síðar kom hún aftur, bað barþjóninn um að geyma glasið og bætti við að hún hreinlega þorði ekki að skilja það eftir.

Mér brá. Treysti þessi stelpa okkur virkilega ekki til þess að lauma ekki lyfjum út í glasið hennar? Erum við félagarnir svona nauðgaralegir?

Við erum ósköp venjulegir strákar, ég og vinir mínir — nauðgarar líta ekkert öðruvísi út en aðrir. Þeir eru ekki með horn og hala. Tölfræðilega var meira að segja ekki útilokað að hálffullur staðurinn hafi geymt nokkra hrotta með slíkan viðbjóð á samviskunni.

Þetta væri allt annað mál ef allir nauðgarar litu eins út — ef þeir væru allir sveittir, ógeðslegir og á svipinn eins og þær væru að plotta eitthvað. Það er því miður ekki raunin. Við liggjum allir undir grun og það er ömurlegt en þó skiljanlegt og engum að kenna nema þessum ömurlega hópi af siðblindum smásálum sem hafa einbeittan vilja til að rústa lífi fólks, helst stúlkna. Að lauma ólyfjan í glös er nefnilega þaulskipulagður glæpur sem enginn fremur óvart.

Stelpan með drykkinn var með vaðið fyrir neðan sig að ástæðu. Ég og vinir mínir getum ekki áfellst hana fyrir að treysta okkur ekki en við getum talað um þetta og reynt þannig að vekja athygli á þessu ömurlega ástandi.

Þessi pistill er kannski ekki að fara að stoppa neinn en meðvitund gerir það kannski.

Dagurinn sem veröldin hrundi

Í morgun las ég bakþanka eftir Stíg Helgason, fyrrverandi vinnufélaga og mann sem ég taldi mig þekkja. Þeir enduðu á því að hann fullyrti nánast að hann kann ekki að meta sjónvarpsþættina Seinfeld. Sorgarferlið hófst umsvifalaust:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo fór ég í afneitun:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo var ég reiður. Mjög reiður:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo helltist yfir mig vonleysið:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo kíkti ég reyndar í Mjölni:

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir það kom þunglyndið:

 

 

 

 

 

 

 

 

Og nú sit ég og horfi á fjórðu seríuna af Seinfeld og hugsa.

Endurnýjum kynnin við Simpsons. Fyrir börnin

Ferill strákanna í Sigur Rós náði ákveðnum hápunkti á sunnudagskvöld þegar Simpsons-þátturinn The Saga of Carl var sýndur. Ekki nóg með að þeim hafi brugðið fyrir í þættinum ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, fráfarandi forsætisráðherra, heldur sáu þeir um tónlist þáttarins ásamt því að endurgera þetta frægasta stef sjónvarpssögunnar á sinn hátt.

Erfitt er að finna magnaðari leið til að sýna nokkrum listamanni heiður en að leyfa honum að taka þátt í gerð Simpsons-þáttar. Og það var allt gott við þennan þátt — nema auðvitað þátturinn sjálfur.

Þættirnir um Simpsons-fjölskylduna eru einstakt fyrirbæri — menningarlegur hornsteinn í sögu hins vestræna heims, frumkvöðull í húmor ásamt því að vera á einhvern óskiljanlegan hátt allra. Sjö ára börn geta haft gaman að Simpsons-fjölskyldunni þrátt fyrir að meðtaka ekki helminginn af margslungnum húmornum sem er svo stútfullur af samfélagsádeilu að maður verður að horfa aftur og aftur til að ná öllum bröndurunum. Nú er ég að sjálfsögðu að tala um sirka fyrstu 13 þáttaraðirnar. Simpsons hefur hvorki verið fugl né fiskur síðustu ár eftir eitt magnaðasta run sjónvarpssögunnar á tíunda áratugnum.

Þátturinn á sunnudagskvöld er þó ágætisspark í rassinn á okkur öll. Auðvitað þarf sérstaklega að sparka í rassinn á þeim sem af einhverri ástæðu misstu af Simpsons á sínum tíma. Eða eiga börn sem eiga eftir að verða vitni af snilldinni sem mótaði kynslóðina sem er um það bil að erfa landið. Ég vil því hvetja alla til að verða sér úti um þætti á borð við The Boy Who Knew Too Much, Bart’s Inner Child, Homer Loves Flanders, Team Homer, Deep Space Homer, Cape Feare, A Fish Called Selma, Homer: Bad Man, Homer the Great, Hurricane Neddy, 22 Short Films About Springfield, Homer the Heretic, Deep Space Homer, Marge vs. The Monorail, Last Exit to Springfield, You Only Move Twice, Homer’s Enemy, Bart’s Comet, The Cartridge Family, Treehouse of Horror V (besti hrekkjavökuþátturinn), Homie the Clown, Lisa the Iconoclast, Bart Gets Famous, Homer at the Bat, Burns, Homer’s Barbershop Quartet, Baby Burns, The Itchy & Scratchy & Poochie Show og að sjálfsögðu hinn gallsúra El Viaje Misterioso de Nuestro Jomer.

Þetta eru aðeins örfá dæmi um þætti sem allir, allir, allir verða að vera búnir að sjá. Þetta er fáránlega gott stöff. Og þetta er stöff sem skiptir okkur gríðarlegu máli. Þetta er menningin okkar. Eitthvað sem verður ekki endurtekið. Sýnið börnunum ykkar þessa þætti. Horfið sjálf. Ef þið eruð búin að því horfið aftur. Ef ekki fyrir mig, þá fyrir börnin.

Merkt

Áfengi verður aldrei selt í matvöruverslunum

Umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum skýtur reglulega upp kollinum og í Fréttatímanum í dag gagnrýnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, núverandi fyrirkomulag. Hún segist trúa því að með tilkomu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn verði sala á áfengi leyfð í matvöruverslunum, eins og var raunar samþykkt á landsfundi flokksins í febrúar, ásamt því að lækka aldur til áfengiskaupa niður í 18 ár.

Ég hefði nákvæmlega ekkert á móti því að geta keypt bjór í næstu verslun þegar mér hentar. Það mun hins vegar aldrei gerast á Íslandi, sama hver heldur um stjórnartaumana.

Vínbúðirnar eru mjög góðar og vel reknar verslanir. Vöruúrvalið er frábært, þjónustan framúrskarandi og meira að segja opnunartímarnir eru orðnir nokkuð rúmir, þó það sé auðvitað fáránlegt að loka á sunnudögum vegna þess að það stendur í gamla testamentinu að fólk eigi að nota þá helgu daga í eitthvað annað en að fara í ríkið. Ég átta mig á því að það er eflaust erfitt að klúðra rekstri áfengisverslana á Íslandi en hallarekstur bensínstöðva landsins undanfarin ár hefur sannað að allt er hægt.

Ef ríkisstjórnin sem tekur við hefur vilja til að standa við ályktun Sjálfstæðisflokksins um að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum, þá held ég að viljinn hverfi eftir að gluggað hefur verið í ársreikning Vínbúðanna fyrir árið 2011 (þetta eru svo magnaðar verslanir að meira að segja árskýrslan er frábær lesning). Þar kemur meðal annars fram að Vínbúðirnar eru að skila um 1,2 milljarði í hagnað — þar af fer milljarður í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Núverandi fyrirkomulag á sölu á áfengi og tóbaki skilar alls rúmum 20 milljörðum í ríkiskassann, í gegnum arðgreiðslur, virðisaukaskatt, áfengis- og tóbaksgjöld.

Vissulega myndu peningarnir halda áfram að streyma inn í ríkissjóð, hvar sem áfengi yrði selt. Málið er að rekstrargrundvellinum yrði kippt undan Vínbúðunum ef þær færu allt í einu í samkeppni við Bónus. Eða ef þær myndu aðeins selja sterkt vín og matvöruverslanir myndu sjá um hitt.

Ég hef því ekki trú á því að nokkur maður ætli að hrófla við núverandi kerfi. Sama í hvaða flokki hann er.

Hvernig Snapchat mun tortíma kynlífi

Vestræn siðmenning hefur alið upp kynslóð eftir kynslóð af mínútumönnum. Þetta eru menn sem njóta góðs af því að hafa aldrei í sögunni þurft að eyða skemmri tíma í að leita myndböndum sem uppfylla dýpstu hugaróra þeirra — hvort sem þeir vilja svart eða hvítt, loðið eða sköllótt, feitt eða mjótt. Takmarkið er skýrt og ekki setur blessað klámið skilyrði um forleik, endingu eða líkamsburði. Þetta er iðnaður sem spyr ekki spurninga heldur tekur hlutverk sitt sem auðmjúkur saurlífsþjónn alvarlega; til þjónustu reiðubúinn hvar og hvenær sem er.

Klám hefur breytt kynlífi til frambúðar. Brenglun hlutverka kynjanna er eitt, þó rannsóknum beri ekki saman um hversu mikið blóð er á höndum klámsins, en kröfuleysið er annað. Klám er nefnilega undirgefnasta fyrirbæri heims og það hefur komið fólki upp á lagið með að ljúka sér af á undraskömmum tíma; fræðigreinar hafa verið skrifaðar um  hvernig fjörinu lýkur í mörgum tilvikum áður en það hefst — hlutaðeigendum til mikillar gremju, skammar. Jafnvel sorgar. Vísindamenn standa ráðþrota gagnvart vandanum og lyfjaframleiðendur hlæja alla leiðina í bankann. Og þar komum við að nýja nágrannanum í götunni: Snapchat.

Snapchat er símaforrit sem gerir notandanum kleift að senda myndir og myndbönd til annarra notanda. Rosa einfalt. Tvistið við Snapchat er að sá sem sendir myndirnar eða myndböndin ræður hversu lengi viðtakandinn fær að njóta dýrðarinnar. Eftir að tíminn er liðinn er myndin eða myndbandið horfið að eilífu (eða allavega þangað til Snapchat-hneyksli skekur heimsbyggðina og allt efnið verður opinbert á einu bretti. Bíðið bara).

Og aldrei er okkur treystandi. Þegar maðurinn fann upp byssu fór hann í stríð, þegar hann fann upp bjór datt hann í það og þegar hann fékk tækifæri til að senda myndir til fólks, vitandi að þær myndu hverfa að eilífu skömmu eftir að viðtakandinn opnaði þær, þá tók hann mynd af typpinu á sér og sendi flissandi af stað. Það gerðist einmitt um gjörvalla heimsbyggðina og Snapchat varð á skömmum tíma heimsins stærsta dreifingargátt fyrir heimatilbúna erótík.

Þannig mun Snapchat á endanum tortíma kynlífi fyrir fullt og allt. Fólk heldur áfram að senda hvert öðru djarfar myndir sem lifa að meðaltali í sjö sekúndur. Veikgeðja karlmenn komast upp á lagið með að láta sér þær nægja, ef þið vitið hvað ég meina — gremjan, skömmin og sorgin stigmagnast og eftir að byltingunni svelgist á mínútumannakynslóðinni mætir hún örlögum sínum, stökkbreytt í martröð allra elskhuga: Sekúndumannakynslóðina.

%d bloggurum líkar þetta: