Hvernig Snapchat mun tortíma kynlífi

Vestræn siðmenning hefur alið upp kynslóð eftir kynslóð af mínútumönnum. Þetta eru menn sem njóta góðs af því að hafa aldrei í sögunni þurft að eyða skemmri tíma í að leita myndböndum sem uppfylla dýpstu hugaróra þeirra — hvort sem þeir vilja svart eða hvítt, loðið eða sköllótt, feitt eða mjótt. Takmarkið er skýrt og ekki setur blessað klámið skilyrði um forleik, endingu eða líkamsburði. Þetta er iðnaður sem spyr ekki spurninga heldur tekur hlutverk sitt sem auðmjúkur saurlífsþjónn alvarlega; til þjónustu reiðubúinn hvar og hvenær sem er.

Klám hefur breytt kynlífi til frambúðar. Brenglun hlutverka kynjanna er eitt, þó rannsóknum beri ekki saman um hversu mikið blóð er á höndum klámsins, en kröfuleysið er annað. Klám er nefnilega undirgefnasta fyrirbæri heims og það hefur komið fólki upp á lagið með að ljúka sér af á undraskömmum tíma; fræðigreinar hafa verið skrifaðar um  hvernig fjörinu lýkur í mörgum tilvikum áður en það hefst — hlutaðeigendum til mikillar gremju, skammar. Jafnvel sorgar. Vísindamenn standa ráðþrota gagnvart vandanum og lyfjaframleiðendur hlæja alla leiðina í bankann. Og þar komum við að nýja nágrannanum í götunni: Snapchat.

Snapchat er símaforrit sem gerir notandanum kleift að senda myndir og myndbönd til annarra notanda. Rosa einfalt. Tvistið við Snapchat er að sá sem sendir myndirnar eða myndböndin ræður hversu lengi viðtakandinn fær að njóta dýrðarinnar. Eftir að tíminn er liðinn er myndin eða myndbandið horfið að eilífu (eða allavega þangað til Snapchat-hneyksli skekur heimsbyggðina og allt efnið verður opinbert á einu bretti. Bíðið bara).

Og aldrei er okkur treystandi. Þegar maðurinn fann upp byssu fór hann í stríð, þegar hann fann upp bjór datt hann í það og þegar hann fékk tækifæri til að senda myndir til fólks, vitandi að þær myndu hverfa að eilífu skömmu eftir að viðtakandinn opnaði þær, þá tók hann mynd af typpinu á sér og sendi flissandi af stað. Það gerðist einmitt um gjörvalla heimsbyggðina og Snapchat varð á skömmum tíma heimsins stærsta dreifingargátt fyrir heimatilbúna erótík.

Þannig mun Snapchat á endanum tortíma kynlífi fyrir fullt og allt. Fólk heldur áfram að senda hvert öðru djarfar myndir sem lifa að meðaltali í sjö sekúndur. Veikgeðja karlmenn komast upp á lagið með að láta sér þær nægja, ef þið vitið hvað ég meina — gremjan, skömmin og sorgin stigmagnast og eftir að byltingunni svelgist á mínútumannakynslóðinni mætir hún örlögum sínum, stökkbreytt í martröð allra elskhuga: Sekúndumannakynslóðina.

Auglýsingar

6 hugrenningar um “Hvernig Snapchat mun tortíma kynlífi

 1. Margrét skrifar:

  Áttu ekki við að þeir hafi aldrei þurft að eyða lengri tíma…??

 2. atlifannar skrifar:

  Neibb. Aðgengið er orðið svo svakalegt að leitin tekur enga stund í dag.

  • Margrét skrifar:

   Já, nákvæmlega. Þá hafa þeir aldrei þurft að eyða lengri tíma en…. skemmri þýðir styttri. Ef þeir hafa aldrei þurft að eyða skemmri tíma en mínútu í eitthvað, þá hafa þeir í það minnsta þurft að eyða mínútu í það. Þ.e. mínútu eða meira.

   • atlifannar skrifar:

    Hehe. Misskilningur. Sko. Það sem ég meina er að leitin að klámi hefur aldrei tekið skemmri tíma en í dag. Vegna þess að aðgengið er orðið svo yfirgengilega gott. Einu sinni tók lengri tíma að finna stöffið.

    Þegar ég var 14 ára var ég heillengi að finna mynd af allsberri Pamelu Anderson. Í dag tekur sama leit mjög stutta stund. Ergo: Klámleit fólks hefur aldrei tekið skemmri tíma 🙂

 3. Margrét skrifar:

  Jæja, það er nú gott að þú þarft ekki að eyða öllum deginum í að finna hana Pamelu þína 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: