Áfengi verður aldrei selt í matvöruverslunum

Umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum skýtur reglulega upp kollinum og í Fréttatímanum í dag gagnrýnir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður Heimdallar, núverandi fyrirkomulag. Hún segist trúa því að með tilkomu Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn verði sala á áfengi leyfð í matvöruverslunum, eins og var raunar samþykkt á landsfundi flokksins í febrúar, ásamt því að lækka aldur til áfengiskaupa niður í 18 ár.

Ég hefði nákvæmlega ekkert á móti því að geta keypt bjór í næstu verslun þegar mér hentar. Það mun hins vegar aldrei gerast á Íslandi, sama hver heldur um stjórnartaumana.

Vínbúðirnar eru mjög góðar og vel reknar verslanir. Vöruúrvalið er frábært, þjónustan framúrskarandi og meira að segja opnunartímarnir eru orðnir nokkuð rúmir, þó það sé auðvitað fáránlegt að loka á sunnudögum vegna þess að það stendur í gamla testamentinu að fólk eigi að nota þá helgu daga í eitthvað annað en að fara í ríkið. Ég átta mig á því að það er eflaust erfitt að klúðra rekstri áfengisverslana á Íslandi en hallarekstur bensínstöðva landsins undanfarin ár hefur sannað að allt er hægt.

Ef ríkisstjórnin sem tekur við hefur vilja til að standa við ályktun Sjálfstæðisflokksins um að leyfa sölu á áfengi í matvöruverslunum, þá held ég að viljinn hverfi eftir að gluggað hefur verið í ársreikning Vínbúðanna fyrir árið 2011 (þetta eru svo magnaðar verslanir að meira að segja árskýrslan er frábær lesning). Þar kemur meðal annars fram að Vínbúðirnar eru að skila um 1,2 milljarði í hagnað — þar af fer milljarður í arðgreiðslur til ríkissjóðs. Núverandi fyrirkomulag á sölu á áfengi og tóbaki skilar alls rúmum 20 milljörðum í ríkiskassann, í gegnum arðgreiðslur, virðisaukaskatt, áfengis- og tóbaksgjöld.

Vissulega myndu peningarnir halda áfram að streyma inn í ríkissjóð, hvar sem áfengi yrði selt. Málið er að rekstrargrundvellinum yrði kippt undan Vínbúðunum ef þær færu allt í einu í samkeppni við Bónus. Eða ef þær myndu aðeins selja sterkt vín og matvöruverslanir myndu sjá um hitt.

Ég hef því ekki trú á því að nokkur maður ætli að hrófla við núverandi kerfi. Sama í hvaða flokki hann er.

Auglýsingar

35 hugrenningar um “Áfengi verður aldrei selt í matvöruverslunum

 1. Einhvern veginn minnir mig að vínbúðir þrífast ágætlega í löndum þar sem vín er selt í matvöruverslunum.

  Mætti ekki færa þessi rök yfir á, td. kjöt, banna sölu á kjöti nema í þar til gerðum verslunum, Kjötbúð ríkisins, sem væri þá örugglega með betri aðgang og betra úrval en verslanir bjóða í dag. Nú eða ekki.

 2. Einar Steingrimsson skrifar:

  Það er ansi sérkennilegt að tala um 1,2 milljarða hagnað eins og hann segi eitthvað um rekstur vínbúðanna. Ríkið ákveður hvað ríkið (ÁTVR) má leggja á vörurnar. Það væri hægt með einu pennastriki að hækka hagnaðinn í 2 milljarða, eða lækka hann niður í núll, eða niður fyrir það. Það myndi segja nákvæmlega jafn lítið um rekstur búðanna.

 3. Ómar Örn Ómarsson skrifar:

  Þetta er einmitt það sem að ég er búinn að vera að segja við fólk. Vill það í alvörunni skipta á frábæru vöruúrvali (sem er frammúrskarandi miðað við hversu lítill markaðurinn er) og metnaðarfullri þjónustu, bara til þess að geta nálgast rauðvínsbelju í samkaup og nokkrar tegundir af algengasta lagerbjórnum?

 4. Óli skrifar:

  Átvr leggur 12% á léttvín og bjór, 9% á sterkvín, fyrir utan skatta, miðað við þá álgningu þá er 1,2 milljarða hagnaður ansi vel að sér staðið. Ég myndi telja að einkaðilar myndi leggja töluvert meira á þetta. Þetta er ekki spurning hvort vínsala í einkarekstri mynd ekki borga sig, heldur hvort við neytendur myndum þurfa borga hærra verð fyrir áfengið á sama tíma sem úrval og þjónusta myndi minnka.

  upplýsingar um álagningu er fengin úr árskýrslu ÁTVR 2011.

 5. Grímur skrifar:

  Þetta er einfalt það kostar að hafa opið á sunnudögum = verðið hækkar.
  Ef bjór og léttvín í matvörubúðir þá munu vínbúðunum verða lokað – alveg á hreinu að verðið hækkar – Samkeppnisstofnun mun ekki sætta sig við niðurgreidda samkeppni
  = Úrvalið af tegundum í Hagkaup verður mjög takmarkað og verðið hærra

  Lausn = sunnudagssullarar bruggi bara sjálfir sitt vín og öl
  og leyfi okkur hinum að hafa okkar góðu vínbúðir í friði

 6. Sigurjón Skúlason skrifar:

  Það er vert að benda á að þó svo að þjónusta Vínbúðanna hafi batnað seinustu ár og úrvalið aukist þá hefur einokun á smásölumarkaði sjaldan verið neytendum til hagsbóta.

  Vissulega munu verslanir eins og Bónus, Samkaup og 10-11 hafa fátæklegt úrval af áfengi en það er fjarstæða að áætla að hér muni ekki skjóta niður rótum, verslanir sem munu vera með sértækara úrval, einskonar sælkerabúðir sem þjóna munu sértækari kröfum neytenda.

  Einnig er erfitt að hafa trú á þeirri skynsemi sem mótar áfengisstefnuna hérlendis, þegar nafnlausir skrifstofumenn ÁTVR geta hafnað heildsölum að selja áfenga drykki á grundvelli þess að umbúðirnar hvetji yngra fólk til öldrykkju.

  Ríkið mun áfram geta mætt forvarnarmarkmiðum sínum með skattlagningarvaldinu, en neytendur ættu ekki að þurfa hræðast frjálsa samkeppni á bjór og léttvíni.

  Sigurjón

 7. Andrés skrifar:

  Þjónustan í ÁTVR hefur batnað og aukist með hverju árinu. Ég get ekki ímyndað mér að verslanir hafi svigrúm til að skaffa sérfræðiþekkingu á þessu sviði þar sem maður getu varla keypt kjöt í dag úr búð af fagaðila. Ef þú getur ekki drattast í ríkið eftir þínu áfengi, þà áttu ekki skilið að drekka.

 8. Gunnar Óli Sölvason skrifar:

  Ómar, þetta komment þitt er algerlega út í hött.

  Nú er ég bjór „pervert“. Ég sæki bjórhátíðir út fyrir landssteinana, og ég elti uppi góðan og sérstakan bjór hvar sem ég kemst í hann. Í Kaupmannahöfn er frábært úrval af gæða bjór. Ekkert af honum er selt í Ríkisreknu mónópólíi. Hann er seldur í sérstökum flöskubúðum sem sérhæfa sig í að flytja inn bestu bjóra í heimi, safna þeim saman á einn stað og selja þá á aðeins hærra verði til þerra sem eru tilbúnir að borga það verð.

  Þeir sem síðan sætta sig við að drekka ódýran lagerbjór munu síðan geta keypt sér Bónus Lager í Bónus, í gulri dós með bleiku svíni á. Hann mun að öllum líkindum verða ódýrari en nokkuð það sem boðið er uppá í ríkinu í dag.

 9. Einar Steingrimsson skrifar:

  Margt í þessari umræðu hér minnir mig á viðkvæðið í gamla daga: Ef það er ekki til í Kaupfélaginu, þá þarftu ekki á því að halda. Eini munurinn er að í gamla daga voru það gamlir kallar sem sögðu þetta, en ég hef á tilfinningunni að hér sé frekar ungt fólk á ferð.

  Sýnir bara að allt heimsósómarausið um að ungdómnum sé ekki viðbjargandi er út í hött; hann er miklu íhaldssamari en við gamla fólkið. 🙂

 10. Helga skrifar:

  Gunnar Óli. Til þess að komast í þær búðir þarftu að eltast við þær. Þú þarft að leita þessar sérstöku bjórbúðir uppi. Það er ekki þannig með ÁTVR. Það er úti um allt og flestar tegundir til í öllum búðum (nema auðvitað úti á landi). Ef þú ert í Kringlunni getur þú sem sagt nálgast þitt rauðvín og ef þú ert í Smáralindinni getur þú það líka. Það er þægilegt og hagræðing að þurfa ekki að elta uppi búðir sem selja nákvæmlega þá tegund af rauðvíni sem þú fílar heldur geta bara farið í ríkið í þeirri verslunarmiðstöð sem þú ert í og gengið að víninu vísu.

  Mér finnst alveg úti í hött að fara að selja áfengi í matvörubúðum enda myndi úrvalið minnka og verðið hækka.

 11. Óli skrifar:

  Sigurjón hvernig verðlagning heldur þú að þessar „fjölmörgu“ sælkerabúðir muni hafa? Hversu margar sérverslanir myndu þrífast fyrir utan Reykjavík. Núna er í kringum 18 „sælkerabúðir“ ( það er að segja vínbúðir með yfir 300 tegundir) um allt land.
  Kíktu á umhverfið í USA t.d. ef þú ert fyrir utan aðal stórborginar þá færðu ekki annan bjór iðnaðarbjór, nema í rándýrum „sælkerabúðum“ jafnvel í NY eru verðin á öðrum bjór en sulli 2-3 þrisvar sinnum dýrari, meðan hér er það í yfirleitt tvöfalt, fyrir utan það að hér er mun minna af sulli.
  Ég sem neytandi vil fá góðan bjór á góðu verði, og er nokk sama um forvarnir. Hvað verður um littlu brugghúsin okkar t.d. Hvað með litlu heildsalana, sem komast tiltölulega auðveldlega inn í ríkið með skrýtinn bjór? Af hverju þurfum við sem neytendur að fórna okkar hagsmunum svo einhverjir helgarrónar geti keypt sinn Slotts í matvörubúðum.
  Í landi einsog Íslandi þar sem fákeppni ríður röftum, þarf að hugsa málið í stað þess að trúa blint á „frjálsa“ samkeppni. Það sem skiptir máli er hagur neytenda en ekki verslunareigenda.

 12. Andrés skrifar:

  Eins og mælt úr mínum munni Óli. Ég gleymi því seint þegar ég kom fyrst til NY og sá allar sælkera samlokusjoppurnar sem höfðu á boðstólnum nýkreistan appelsínusafa, brakandi ferskskt salat og lystilega fram bornar samlokur sem biðu eftir að vera keyptar. „afhverju er ekki svona á Íslandi“? Jarmaði ég. Eftir svona hálftíma áttaði ég mig. Stanslaus straumur fólks: sautjándi júní, gay pride, fiskidagurinn mikli, jú neim it. Alla daga allt árið!

 13. Sigurjón Skúlason skrifar:

  Óli. Þetta snýst ekki um að trúa blint á frjálsa samkeppni, reynslan hefur hins vegar kennt okkur íslendingum að ríkisforsjá, neyslustýring og höft á neysluvörum hafa ekki verið neytendum til hagsbóta. Hvet þig til þess að spyrja foreldra þína um úrval ávaxta í verslunum hér áður fyrr. En eins og þú sjálfsagt veist þá var það fremur fátæklegt.

  Vert er í því ljósi að rifja upp orð Jónasar H. Haralz hagfræðings, en hann sagði að fyrsta embættisverk sitt sem nýráðinn ráðuneytisstjóri viðskipatamálaráðuneytisins hafi verið að undirrita innkaupaheimild fyrir eplum sem flytja átti inn fyrir jólin, kallaði hann þetta sérstaka náðargjöf íslenkra stjórnvalda til almennings.

  Þú talar um auðvelt aðgengi lítilla heildsala að hillum vínbúðarinnar, eins og ég benti á í fyrri færslu minni þá fer það eftir hvort vörur þeirra hljóta náð fyrir opinberum starfsmönnum. Ef heildsali býr að vöru sem er eftirsótt af almenningi þá er erfitt að trúa því að hann fari á mis við hana á frjálsum samkeppnismarkaði. Meiri líkur eru hins vegar á að „skrýtnar“ áfengistegundir nái ekki að þræða nálarauga opinbera umræðunefnda.

  Þegar kemur að þessum sérhæfðari verslunum þá munu þær einungis þrífast í stærri plássum en valið stendur ekki á milli stórra sælkerabúða eða hornverslana sem selja munu einungis slotts og ódýrt kassavín. Líkur leiða til þess að margbreytileg flóra verslana muni taka til starfa. Nægir að benda á að lágvöruverslanir með fastmótað vöruúrval starfa á flestum kaupstöðum á landinu sem ná ákveðinni stærð og þjónusta í leiðinni nærliggjandi sveitir, er einhver ástæða að önnur lögmál eigi að gilda um áfengisverslun? Ég hef trú á að áfengisúrvalið á stöðum eins og Vopnafirði muni ekki minnka, Vínbúðin í þessum minni plássum höndlar lítið með vörur sem ekki seljast.

  Með verðið er erfitt að segja, að undanskildu innkaupaverði heildsala þá á sér ekki stað frjáls verðmyndun sökum þess að áfengisverði er stýrt af opinberum gjöldum og verðlagningu fyrirtækis sem starfar ekki einungis samkvæmt hagnaðarvon heldur einnig af samfélagsmarkmiðum sem mótuð eru af hinu opinbera.

  Vill að lokum taka undir með Einari, umræðan um ÁTVR er mótuð af gömlu kaupfélagslínunni „ef það fæst ekki hér þá þarftu ekki á því að halda.“

  Sigurjón

 14. Helga skrifar:

  Sigurjón Skúlason. Nei umræðan um ÁTVR er mótuð af því að fólk virðist vilja breyta fyrirkomulagi sem er að virka, af því að sumt fólk virðist telja að einkaframtakið sé alltaf best. Sem það er ekki nærri því alltaf og við erum í dag með fyrirkomulag sem virkar.

  Það er nákvæmlega ekkert að fyrirkomulaginu eins og það er í dag. Það eru búðir út um allt með langan opnunartíma og mikið vöruúrval. Ég sé bara ekki vandamálið.

 15. Áslaug Ragnars skrifar:

  Virka? Hvað kostar að reka allar þessar áfengisbúðir?

 16. „Ég hef því ekki trú á því að nokkur maður ætli að hrófla við núverandi kerfi. Sama í hvaða flokki hann er.“

  Ástæðan fyrir því að ég kaus ekki Bjarta Framtíð!

 17. atlifannar skrifar:

  Valdimar, sem kjósandi myndi ég þakka fyrir að það verði ekki hróflað við kerfi sem skilar 20 milljörðum í ríkiskassann á ári. Svona allavega á meðan við borgum 90 milljarða í vexti á ári.

  • Einar Steingrimsson skrifar:

   Atli: eru þessir 20 milljarðar ekki nánast allir áfengisskatturinn? Hann myndi ekki breytast þótt áfengi yrði selt í öðrum verslunum.

   • atlifannar skrifar:

    Jú, 19 af þessum 20 milljörðum er skattur. Áður en þú heldur áfram að krefja mig svara þá er kannski rétt að ég útskýri að ég er svo sem ekki að taka neina afstöðu með þessum pistli, heldur að benda á hluti sem mér finnst augljósir. Þá tala ég líka um að „hrófla við kerfi“ ekki verslunum.

    Ég veit ekkert hvernig áfengissala myndi þróast ef kerfinu yrði breytt. Ég veit þ.a.l ekkert um hversu mikið ríkið fengi í skatttekjur. Kannski myndu þær aukast? Það er aukaatriði og ef þú telur þig þurfa að rökræða þessa hluti við mig eftir að hafa lesið sama pistil og ég skrifaði skaltu lesa hann yfir aftur.

   • Einar Steingrimsson skrifar:

    Atli: Ég biðst margfaldlega afsökunar á að hafa leyft mér að gera athugasemd við athugasemd sem þú gerðir. Og takk fyrir vinasamlega ábendingu; til að sýna iðrun og gera yfirbót mun ég lesa pistilinn aftur, eins og þú leggur til, a.m.k. tuttugu sinnum (og bæta við tíu faðirvorum til öryggis).

  • Eva Hauksdottir skrifar:

   Þú veist ekkert hvaða áhrif það myndi hafa á verðlag og sölu að breyta kerfinu og telur þitt þekkingarleysi á því góða ástæðu til að viðhalda einokuninni? Atli Fannar þarftu ekki aðeins að endurskoða þessa hugmynd?

   • Atli Örn Gunnarsson skrifar:

    Eva, til þess að matvöruverslanir gætu selt áfengi á sama verði og Átvr gerir núna þyrfti ríkið að lækka áfengisgjaldið niður all hressilega. Það myndi þýða skerðingu á tekjum ríkisinns upp á marga milljarða á ári. Það er ekki hægt að bera Ísland saman við lönd í suður evrópu þar sem ríki hafa jafnvel engin áfengisgjöld, eða við Danmörk sem er með miklu lægri gjöld á áfengi en restin af norðurlöndunum.
    Við erum að tala um að lækka tekjustofn ríkisinns svo við getum keypt vínið á sama verði af Jóhannesi í bónus á sama verði.
    Ég er annar Atli by the way.

   • Einar Steingrimsson skrifar:

    Atli: Er einhver að leggja til að ríkið lækki áfengisgjald til að matvöruverslanir geti selt áfengi á sama verði og ÁTVR? Ég sé fólk bara leggja til að matvöruverslanir megi selja áfengi (en ekki að þær verði ekki að skila sama áfengisgjaldi). Og, á hverju byggirðu þá staðhæfingu að ríkið þyrfti „að lækka áfengisgjaldið niður all hressilega“?

   • Atli Fannar skrifar:

    Eva, endurskoða hvaða hugmynd?

   • Eva Hauksdottir skrifar:

    Ég er að vísa til þinna eigin orða „Ég veit ekkert hvernig áfengissala myndi þróast ef kerfinu yrði breytt. Ég veit þ.a.l ekkert um hversu mikið ríkið fengi í skatttekjur. “ Ef ég skil þig rétt þá viltu ekki hrófla við kerfinu vegna þess að þú veist ekki hvaða áhrif það myndi hafa. Er það ekki rétt skilið hjá mér?

   • Eva Hauksdottir skrifar:

    Ég skil ekki alveg þessa umræðu um að það myndi hækka áfengisverð ef vín yrðu seld í matvörubúðum. Þyrftu vínbúðir ÁTVR að hækka verðið ef rauðvín yrði líka selt í Bónus?

   • Atli Örn Gunnarsson skrifar:

    Álagning Átvr er mjög lág, um 9-12%, á meðan meðal álagning á áfengi erlendis er um 35-45% í matvöruverslunum. Matvöruverslanir eru reknar með hagnaðarsjónarmiði og gætu því aldrei unað 12% álagningu, þær vilja græða. Ef vín yrði sett í matvöruverslanir yrðu búðum Átvr lokað vegna þess að ríkið á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila…
    Matvöruverslanir eru ekki að fara gefa pláss í hillum sínum fyrir vín til þess að koma mögulega út á sléttu, eða það sem verra er með tapi.

   • Einar Steingrimsson skrifar:

    Þetta ætti þá að vera einfalt mál, eða hvað, Atli Örn? Við leyfum matvöruverslunum að selja áfengi, í nafni frelsis, en þær gera það ekki af því þær hafa engan áhuga á því. Allir ánægðir.

   • Eva Hauksdottir skrifar:

    …“búðum Átvr lokað vegna þess að ríkið á ekki að vera í samkeppni við einkaaðila…“ Ok, nú fatta ég. Alveg eins og ríkið hætti að reka útvarpsstöðvar þegar einkaaðilar komu inn á þann markað. Alveg eins og ríkið hætti að reka skóla þegar einkaskólar fengu starfsleyfi.

   • Atli Örn Gunnarsson skrifar:

    Eva, það er stefnan sem var samþykkt á landsfundinum hjá sjálfstæðisflokknum.
    Ríkið fer ekki í samkeppni á smásölumarkaði þar sem einkaaðilar ættu ekki séns, þar með væri gagnslaust að setja vín í matvöruverslanir til að byrja með. Það á að leggja niður Átvr.
    Sjónvarpið og útvarpið eru síðan allt annar handleggur og eru ekki sambærilegir smásölu.

   • Atli Örn Gunnarsson skrifar:

    Umræðan um að setja vín og bjór í matvöruverslanir gengur út á það færa söluna alfarið frá ríkinu og yfir til einkaaðila, ekki að hafa þetta tvennt hlið við hlið.

 18. dovydas skrifar:

  djöfulsins aumingjar eruði hættið þessu væli og kaupið ykkur landa ef þið eruð svona cheap, og ef þið þurfið endilega að drekka a sunnudegi þa getiði bara keypt daginn aður þegar það er opið og kommon maður getur alveg orðið fullur fyrir kanski 3000 kr

 19. Gielgud skrifar:

  Áfengi í matvöruverslunum => reka unglingana á kössunum => ráða eldra fólk á kassana -> hærri launakostnaður => hærri álagning

 20. Þrátt fyrir „15 ára aðlögunartíma“ þá á verslunin í landinu ennþá í hinum mestu brösum með að selja viðkvæma vöru eins og tóbak sjá (www,fjardarpósturinn.is – baksíðan- 56 % ungmenna gátu keypt tóbak.) Sérverslanir ÁTVR í næsta stórmarkaði veita framúrskarandi góða þjónustu og ráða við það mikilvæga verkefni að selja viðkvæma vöru – slíku er ekki að skipta hvað almenna verslun varðar ef marka má aðgengi ungmenna að tóbaki samkvæmt könnunum ÍTH – Og ef verslunin getur ekki höndlað með tóbak þá er það sólklárt að sama verður uppi á teningnum hvað áfengi varðar?

  • Einar Steingrimsson skrifar:

   Þetta er örugglega allt öruggt og sólklárt og pottþétt, allir þessir spádómar hér um þær hörmungar sem muni dynja á þjóðinni ef reynt verður að gera þetta sem þar að auki er búið að sýna fram á hér með óyggjandi hætti að er gersamlega ómögulegt. Enginn vafi á því …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: