Nauðgarar líta ekkert öðruvísi út en aðrir

Á umbúðunum sem Subway-bátunum er pakkað inn í er texti sem varar mann við því að báturinn gæti reynst gríðarlega heitur (e. extremely hot). Aðvörunin baktryggir fyrirtækið ef óheppinn viðskiptavinur hlýtur annars stigs bruna eftir að hafa bitið of snemma í ristaða skinkubátinn. Leiða má líkur að því að einmitt það hafi einhvern tíma gerst þó ég hafi reyndar aldrei fengið slíkan kjarnorkukafbát.

Viðvaranir sem þessar eru sjaldnast ástæðulausar. Ég hugsaði um það þegar ég las fréttina um gott framtak nemenda við Háskólann í Reykjavík sem vinna að þróun lítils kubbs sem ætlað er að lýsa skæru ljósi komist hann í snertingu við nauðgunarlyf. Kubbinn kalla þau safeCube og vonast hópurinn til að koma honum á markað innan skamms. Ástæðan fyrir því að nemendurnir tóku málin í sínar hendur er sú að sorglega margir stunda að lauma lyfjum í glös ókunnugs fólks, oftast kvenna, í von um að nýta sér ástand viðkomandi í kjölfarið.

Það er hræðilegt að safeCube þurfi að vera til — að svo margir hafi byrlað fólki ólyfjan að hugvitsfólk vinni að leiðum til að ljóstra upp um óþverraskapinn. Spáið í hversu margir siðblindir aumingjar eru þarna úti ef málið er komið á þetta vísindalega stig.

Þessi ömurlegi veruleiki sló mig í andlitið á dögunum þegar ég sat á bar með félögum mínum. Ung stelpa pantaði sér drykk, sem barþjónninn blandaði. Kortinu hennar var synjað svo að hún sagðist ætla að sækja annað og skildi glasið eftir á barnum. Skömmu síðar kom hún aftur, bað barþjóninn um að geyma glasið og bætti við að hún hreinlega þorði ekki að skilja það eftir.

Mér brá. Treysti þessi stelpa okkur virkilega ekki til þess að lauma ekki lyfjum út í glasið hennar? Erum við félagarnir svona nauðgaralegir?

Við erum ósköp venjulegir strákar, ég og vinir mínir — nauðgarar líta ekkert öðruvísi út en aðrir. Þeir eru ekki með horn og hala. Tölfræðilega var meira að segja ekki útilokað að hálffullur staðurinn hafi geymt nokkra hrotta með slíkan viðbjóð á samviskunni.

Þetta væri allt annað mál ef allir nauðgarar litu eins út — ef þeir væru allir sveittir, ógeðslegir og á svipinn eins og þær væru að plotta eitthvað. Það er því miður ekki raunin. Við liggjum allir undir grun og það er ömurlegt en þó skiljanlegt og engum að kenna nema þessum ömurlega hópi af siðblindum smásálum sem hafa einbeittan vilja til að rústa lífi fólks, helst stúlkna. Að lauma ólyfjan í glös er nefnilega þaulskipulagður glæpur sem enginn fremur óvart.

Stelpan með drykkinn var með vaðið fyrir neðan sig að ástæðu. Ég og vinir mínir getum ekki áfellst hana fyrir að treysta okkur ekki en við getum talað um þetta og reynt þannig að vekja athygli á þessu ömurlega ástandi.

Þessi pistill er kannski ekki að fara að stoppa neinn en meðvitund gerir það kannski.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: