Tossinn

Við erum loksins byrjuð að tala um brottfall úr skólakerfinu. Skýrslur sýna að vandinn er alvarlegur og á Stöð 2 í gær hóf göngu sína áhugaverður þáttur sem kallast Tossarnir og fjallar um menntakerfið frá sjónarhorni þeirra sem helltust úr lestinni. Hlutfall þeirra sem byrja í framhaldsskóla en ljúka ekki námi er nefnilega hátt hér á landi miðað við löndin sem við berum okkur saman við. Sjálfur er ég tossi. Ég kláraði ekki framhaldsskóla. Ég byrjaði, lærði stærðfræði, íslensku, dönsku og ensku. Smá í frönsku. Féll í hinu og þessu. Svo þróaðist þetta út í að ég valdi bara auðveld fög sem ég hafði gaman að: Matreiðslu, fjölmiðlafræði, kvikmyndatöku og klippingu.

Ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvað ég vildi gera á þessum tíma og námið sem var í boði var ekki til þess fallið að hjálpa mér við ákvörðunartökuna. Ég get samt að sjálfsögðu sjálfum mér um kennt þar sem það var fyrst og fremst fullkomið áhugaleysi mitt sem varð til þess að ég hætti skóla fyrir tvítugt, eftir nokkrar annir í Fjölbrautaskóla Suðurlands og eina önn í grafískri miðlun í Iðnskólanum í Reykjavík. Við tók ekkert og ég var atvinnulaus þegar atvinnuleysi á Íslandi mældist í styrkleika pilsners.

Svo kom hálfgert leiðindartímabil. Ég vann aðra hverja helgi á Hróa hetti á Selfossi og þáði skertar atvinnuleysisbætur ofan á kaupið. Vinnumálastofnun bauð mér að mæta í hin og þessi atvinnuviðtöl sem ég hafði takmarkaðan áhuga á en sem betur fer býður kerfið fólki ekki upp á að hafna slíkum boðum endalaust. Ég fékk því á endanum val: Annað hvort myndi ég þiggja starf hjá HP kökugerð, við að fletja út flatkökur á nóttinni eða finna aðra vinnu sjálfur. Þrátt fyrir B-mennsku mína hafði ég ekki áhuga á næturvinnunni og fann því tvö spennandi störf til að sækja um: Sem námsráðgjafi í Vallaskóla og blaðamaður á Glugganum á Selfossi. Ég fékk hið síðarnefnda.

Það var sem sagt tilviljun sem réði því að ég fann starfsvettvang sem hentaði mér. Í kjölfarið starfaði ég við fjölmiðla í átta ár — fór frá Glugganum yfir í umbrotið á Blaðinu í Reykjavík og starfaði þar undir fimm ritstjórum, færði mig meira og meira yfir í fréttaskrif og endaði yfir dægurmálakaflanum þegar Blaðið breyttist í 24 stundir. Tók svo við sem ritstjóri Monitors, þegar það var mánaðarblað og ritstýrði því í góðæri og kreppu þangað til mér bauðst starf á Fréttablaðinu árið 2009. Endaði sem fréttastjóri þar og ákvað loks að breyta til í ágúst í fyrra þegar ég tók við framkvæmdastjórastöðu í Bjartri framtíð.

Menntun mín hefur sem sagt nánast eingöngu farið fram á vinnumarkaðnum og ég hef haft frábæra kennara. Þið vitið hver þið eruð. Málið er samt að ég var heppinn. Einhvern veginn datt ég inn í starf sem gaf mér nánast endalausa möguleika til að vaxa. Starf sem menntaði mig á þeim sviðum sem ég er sterkur og var í þokkabót fjandi skemmtilegt. Svoleiðis á skóli einmitt að vera og því miður er hann ekki þannig fyrir alla sem þó vilja læra.

Lausnin hlýtur að vera fjölbreytni. En fyrst þurfum við samt að tala um vandamálið og tala við vandamálið: Þau sem vilja læra en finna sig af einhverjum ástæðum ekki inni í kerfinu. Passa ekki í kassann.

Auglýsingar

Ein hugrenning um “Tossinn

  1. Margeir skrifar:

    Fín grein hjá þér
    Þessi hér er búinn að pæla mikið í tossum og menntakerfinu…mæli með þessu… http://www.ted.com/talks/ken_robinson_says_schools_kill_creativity.html

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: