Ég var einu sinni einstakur

Ég var einu sinni einstakur. Svo einstakur að enginn í heiminum bar sama nafn og ég. Ég fæddist árið 1984 og var fyrsta barn heims til að fá nafnið Atli Fannar. Ekkert annað barn hafði fengið þetta nafn í sögunni. Heimurinn hafði séð fullt af Ötlum en Fannar var þó öllu róttækara. Það var reyndar svo róttækt að foreldrar mínir fengu ekki að gefa mér nafnið án kröftugra mótmæla frá Heiðbjörtu langömmu minni. Henni fannst Atli sleppa en Fannar var í hennar huga ónefni. Frumkvöðlarnir Mamma og pabbi létu það ekki á sig fá og skrifuðu nöfn sín í sögubækurnar ásamt mínu. Fyrsti Atli Fannar heimsins var fæddur.

Næstu ár einkenndust af aðdáun fólks sem var þess heiðurs aðnjótandi að umgangast mig. Hvert sem ég fór dáðist fólk að þessum brúneygða glókolli með einstaka nafnið. Lífið lék við mig. Það var ekki fyrr en árið 1990 sem allt fór til fjandans. Annar drengur var nefndur Atli Fannar og skyndilega var ég ekki lengur einstakur. Eftir sex unaðsleg ár átti ég nafna. Og ekki svona töff nafna eins og afreksmann í íþróttum eða frægan leikari. Nei. Nafni minn var hvítvoðungur.

Nýbakaðir foreldrar landsins voru fljótir að ganga á lagið og aðeins áratug síðar vorum við nafnarnir orðnir tíu. Útbreiðslan var slík að það hætti fljótlega að vera sérstaklega töff að heita Atli Fannar enda svo algengt að tíðni nafna á borð við Jón Þór og Gunnar Örn féllu í skuggann. Veröld mín var að hruni komin. Miskunnarleysi náttúrunnar á sér engin takmörk og í kjölfarið viku ljósu lokkarnir fyrir fyrir músabrúna litnum sem er svo algengur að hann er kallaður „íslenski liturinn“. Þá segja sumir að glampinn sé horfinn úr brúnu augunum.

Og útbreiðslan hélt bara áfram. Frá aldamótum hafa hvorki fleiri né færri en ellefu drengir fengið nafnið Atli Fannar. Ef foreldrar þessa lands verða ekki stöðvaðir, bætist sá fertugasti í hópinn fyrir fertugasta afmælisdaginn minn. Og hvað svo? Má ég búast við frekar útbreiðslu? Jafnvel útrás? Mun nafn mitt heyja baráttu við Múhammeð um toppsætið á listanum yfir vinsælustu nöfn heims? Verður Atli Fannar jafn algengt nafn og Wei Jie í Kína eða Emil Oliver í Finnlandi?

Fyrir utan svefnlausar nætur, algjöra örvæntingu og örið á sál minni hefur þróunin haft í för með sér fleiri ófyrirséðar afleiðingar. Ég var 14 ára þegar ég byrjaði að nota internetið að staðaldri. Þá var næst elsti Atli Fannar aðeins tíu ára gamall og eflaust enn þá að leika sér að Legókubbum. Ógjörningar er að nettengja þá þannig að ég sat eins og ormur á gulli á notendanafninu „atlifannar“ lengi vel. Ég var til dæmis með tölvupóstfangið atlifannar@strik.is. Síðar var ég með atlifannar@torg.is og atlifannar@simnet.is. Ég opnaði vefsíðuna listen.to/atlifannar og geymdi gögn á slóðinni mmedia.is/atlifannar. Svo kom Myspace til sögunnar og það var ekki að spyrja að því: Slóðin Myspace.com/atlifannar var mín. Ég nældi meira að segja í Facebook.com/atlifannar. En það var þá sem her ungra nafna minna sagði stopp. Hingað og ekki lengra, gamli.

Samfélagsmiðlar spretta upp eins og gorkúlur í dag og nafnar mínir eru ætíð skrefi á undan mér, enda yngri og fljótari að tileinka sér nýja tækni. Einhver þeirra tryggði sér notendanafnið atlifannar á Instagram og annar náði Snapchat. Og það sem sárast er: Þeir náðu meira að segja Gmail. Þessi þróun hefur ekki orðið til þess að slá á aldurskomplexinn og tölvupósturinn í nýju vinnunni minni gerir það ekki heldur: Ég sit uppi með atlifannar@althingi.is. Það ætti að tilheyra miðaldra, grásprengdum manni í jakkafötum. Ekki brúneygðum glókolli með nafn sem var einu sinni einstakt.

Flutti eftirfarandi pistil í Sjónmáli á Rás 1 í dag. Hægt að hlusta hér (sirka á 17.44).

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: