Mánaðarskipt greinasafn: október 2013

Það sem ég hef lært af meistaramánuði

  • Að sleppa því að drekka áfengi er það auðveldasta sem ég hef gert. Það hefur ýmsa kosti í för með sér. Sunnudagar eru raunverulegir dagar. Mánudagar líka. Og aukið úthald skóp sigur í póker á dögunum þar sem við sátum til fjögur, aðfaranótt sunnudags.
  • Að sleppa sælgæti og kökum er ekki auðvelt. Það hefur verið ógeðslega erfitt. Ég ferðast um sælgætisland í draumum mínum og í hvert skipti sem minnsta hungurtilfinning gerir vart við sig byrja ég að hugsa um að snúður með súkkulaði myndi seðja hungrið. Eða poki af kúlusúkki. Eða pitsa. Eða amerískar súkkulaðibitakökur. Eða Þristar. Lindubuff. Kanilsnúðar. Ég við vandamál að stríða.
  • Þegar maður eyðir ekki tímanum í bjórdrykkju er auðveldara að æfa. Mikið. Í mánuðinum hefur vikuplanið verið sirka svona: Mánudagar: Víkingaþrek. Þriðjudagar: Körfubolti og BJJ (Brasilískt Jui Jitsu). Miðvikudagar: Víkingaþrek. Fimmtudagar: Víkingaþrek og BJJ. Föstudagar: Víkingaþrek. Laugardagar: Körfubolti. Sunnudagar: Hvíld. Eða víkingaþrek. Spila þetta samt eftir eyranu, meitla ekkert í stein. Hvíli þegar ég er þreyttur og hliðra tímum til.
  • Eggjahvítur færa prótínhristinginn upp í annan og betri bragðheim. Ég blanda prótíni út í nýmjólk og set skvettu af dönskum eggjahvítum sem ég fann í Bónus. Úr verður himneskur mjólkurhristingur, stútfullur af prótíni.
  • Áfengi er fitandi. Er búinn að léttast um tvö kíló á þessum einum og hálfa mánuði sem liðinn er frá því að síðasti brjórinn var opnaður.
  • Fríhöfnin er óvinurinn. Samstarfskona kom heim frá útlöndum um daginn með poka af litlum Snickers, Bounty og Mars-stykkjum. Hófst þá erfiðasti vinnudagur lífs míns þar sem samstarfsfólk mitt kjammsaði á sælgæti milli þess sem það talaði um hversu bragðgott það var: „Milky Way er snilld“, „Snickers er best“, „ég ætla að fá mér tvö“ o.s.frv.

Framhald síðar.

Auglýsingar

Djöfull var ég vitlaus

Ég var spurður um daginn hvort meistaramánuður hafi breytt lífi mínu. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni en ég svaraði að framtakið væri frábær leið til að skerpa á hlutunum — skoða hvort maður geti ekki drukkið minni bjór og borðað minna kúlusúkk. Athuga hvort maður sé ekki örugglega að hreyfa sig eins mikið og maður getur ásamt því að sofa nóg, vakna réttum tíma og allt þetta sjitt sem gerir manni gott.

Ég vil samt alls ekki gera lítið úr því að meistaramánuður hefur pottþétt breytt fullt af lífum. Ég held nefnilega að margir þurfi svona framtak til að taka fyrsta skrefið. Meistaramánuður var ekki til þegar ég tók mitt. Það þurfti aðeins meira til. Og þegar ég segi „aðeins“ meina ég „miklu“.

Hér er lítil dæmisaga sem endar illa: Árið 2007 fór ég á Hróarskelduhátíðina með vinum mínum. Það var mjög gaman. Svo gaman að við ákváðum að halda áfram að skemmta okkur í Kaupmannahöfn eftir að hátíðinni lauk. Þegar fjörið stóð sem hæst ákvað ég að príla upp húsvegg á Strikinu. Af hverju veit ég ekki en ég hafði svo sem ekki mikinn tíma til að velta því fyrir mér þar sem ég lá á götunni með brákaðan ökla. Akkúrat. Ég datt að sjálfsögðu niður og kom á hækjum heim. Til að bæta gráu ofan á svart var sprungið á bílnum mínum þegar ég kom til Keflavíkur. Hafið þið prófað að skipta um dekk á öðrum fæti? Ekki ég heldur. Takk, ókunnugi vörubílstjóri sem hjálpaði mér.

Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa örlagaríku sögu núna er sú að viðbrögð mín voru svo glötuð: Mér var alveg sama. Ég pældi lítið í hvernig brákaði ökklinn myndi hafa áhrif á hreyfigetu mína í framtíðinni vegna þess að ég hélt að það væri útilokað að ég myndi nenna að hreyfa mig í framtíðinni. Ég var löngu hættur að spila körfubolta og nennti ekki að lyfta lóðum. Eina líkamsræktin sem ég stundaði var að skokka upp og niður Laugaveginn um helgar.

Ökklinn angrar mig sem betur fer ekki í dag en þetta er ein af sögunum sem ég rifjaði upp þegar ég ákvað loksins að gera eitthvað að viti. Ég var 25 ára, vaxinn eins og lyfjafeitur, útbrunninn Hollywood-leikari með metnað fyrir næstu helgi. Ég byrjaði á því að spila körfubolta með nokkrum góðum félögum mínum og geri enn. Svo bættist Mjölnir við. Þangað fer ég helst fjórum sinnum í viku í víkingaþrek og í október ætla ég að byrja að láta vini mína tuska mig til í glímu.

Um daginn, þegar víkingaþrekstími stóð sem hæst, fór ég að hugsa um þetta hreyfingarlausa hrúgald sem lá á sófa á Njálsgötunni fyrir nokkrum árum. Í staðinn fyrir að pæla í hvernig ég nennti að keyra mig út á æfingum oft í viku pældi ég í hvernig ég nennti að gera það ekki. Hvernig ég nennti frekar að drekka bjór en spila körfubolta. Hvernig nennti að sofa til tvö á laugardögum í staðinn fyrir að drífa mig á ketilbjölluæfingu og hvernig ég nennti að vera aumur í heimi þar sem ég er beðinn um að hjálpa til við að flytja þrisvar í mánuði.

Djöfull var ég vitlaus.

P.s. Þurfum við ekki almennilegan leigumarkað?

%d bloggurum líkar þetta: