Rót alls ills

Það er ekkert leyndarmál að hvítir karlmenn eru stærsta plága sem nokkurn tíma hefur herjað á plánetuna Jörð. Þeir smíðuðu kerfið sem við búum við í dag og gerir þá ríku stöðugt ríkari. Kerfið er svo gallað og ósjálfbært að það hefur gengið hratt á auðlindir heimsins, útrýmt dýrategundum og gert lífsskilyrði í ákveðnum hlutum heimsins óbærilegt.

Ég hef lengi velt fyrir mér af hverju þetta er svona. Lítið breytist þó ég vilji alls ekki gera lítið úr réttindabaráttu hinna ýmsu hópa sem hafa skilað góðum árangri. Svo góðum að ástandið nálgast að vera viðunandi sums staðar í heiminum. En hvítu karlarnir eiga ennþá meirihluta auðæfa heimsins, þeir eru í áhrifastöðum úti um allt og eru ekki að fara að láta völdin af hendi. Hvernig veit ég það? Ég er einn af þeim.

Til að finna rót vandans þarf að leita langt aftur í tímann. Mjög langt. Hvað veldur því að ár eftir ár, áratug eftir áratug, öld eftir öld leggjum við allt traust okkar á herðar sama þjóðfélagshópsins, sem launar okkur greiðann með óstjórn, kreppum og veseni? Það er nánast eins og það sé búið að þjálfa okkur í að efast ekki um hæfni hvítu karlanna sem eru með öll svörin á reiðum höndum. Nákvæmlega það hefur átt sér stað — þjálfunin hefst strax í barnæsku og þjálfarinn er hvítasti karl allra hvítingja: Jólasveinninn.

Sögu jólasveins nútímans, þessum síkáta á Norðurpólnum, má rekja aftur til 19. aldar. Það er skemmtileg tilviljun því það er einmitt öldin sem allt byrjaði að fara til fjandans: Kapítalisminn var kominn úr böndunum, mannkynið náði milljarðinum, Napóleón var með læti og helvítið hann Frederick Mors fæddist.

Þá varð jólasveinninn líka eins og hann er í dag: Gangandi, úrelt táknmynd fyrir feita auðjöfurinn. Hann á nóg handa öllum en aðeins þeir sem standast óhóflegar kröfur hans fá frá honum litlar gjafir einu sinni ári. Og hann áskilur sér rétt til að fylgjast með frammistöðu þinni, dag og nótt. Þrátt fyrir að hann gefi milljónum barna gjafir á hverju ári gengur aldrei á digra sjóði hans sem virðast ótæmandi. Ofan á það þá mismunar jólasveinninn börnum grimmilega: Rík börn fá miklu flottari gjafir en þau fátæku.

Kæru lesendur, látum ekki þennan síkáta, kókþambandi gígantista plata okkur. Fyrirheit hans kunna að vera fögur en þegar á botninn er hvolft eru skilaboðin skýr: Gerðu það sem ég segi og ég gef þér litla gjöf. Betri táknmynd fyrir gallað kerfi er vandfundin.

2 hugrenningar um “Rót alls ills

  1. Brynjólfur Þorvarðsson skrifar:

    Heyr heyr!

  2. Ásthildur Cesil Þórðardóttir skrifar:

    Góður.

Skildu eftir svar við Ásthildur Cesil Þórðardóttir Hætta við svar