Mánaðarskipt greinasafn: desember 2013

Völva 2014 – III. hluti

Síðasti hluti þríleiksins.

1. Facebook byrjar að rukka fyrir síður eftir lækmagni. Maggi Mix lýsir sig í kjölfarið gjaldþrota.

2. Crossfit verður fjölbreyttara. Á meðal nýrra keppnisgreina eru opnun krukka, kommóðuburður, vítaskot í körfu og tenging AppleTV.

3. 47 af 52 þeirra sem hreppa stóra vinninginn í lottóinu verða Norðmenn. Enginn þeirra kaupir jóker.

4. Jim Gaffigan hættir við komu sína til Íslands þegar hann kemst að því að McDonalds hefur yfirgefið landið.

5. Vísindamenn komast að því sem marga hefur grunað: KFC er það besta sem fólk getur látið ofan í sig eftir æfingu.

6. Listi yfir pók fólks á Facebook lekur og í kjölfarið verður skilnaðarlögfræði hin nýja þrotabúalögfræði.

7. Steindi Jr. verður bæjarstjóri Mosfellsbæjar. Fyrsta embættisverk hans verður að breyta nafni bæjarins í Pizzabær.

8. Rannsókn leiðir í ljós að bakteríumagn á umbúðum sótthreinsandi gels sé meira en ofan í almenningsklósettum skemmtistaða.

9. Enn gefur Sigmundur Davíð lítið fyrir skammstafanir þegar hann er spurður um gott gengi OKC í NBA.

10. Frjálslyndi Frans páfa nær nýjum hæðum þegar hann fær sér pylsu á föstudegi.

Allt á Twitter: #völva2014

Auglýsingar

Ef verðlaun væru marktæk

Allir vita að það er undarlegt að veita verðlaun fyrir árangur þar sem mælieiningin er huglæg. Þess vegna gerir það enginn. Helstu verðlaunahátíðir heims veita nokkurs konar söluverðlaun enda ógjörningur að mæla með óyggjandi hætti hvaða plata eða kvikmynd er best. Gæði eru mæld á fjölbreyttan hátt en lokaniðurstaðan ræðst ávallt af huglægu mati fólks, sem stjórnast af ótal tilfinningum.

Nú þegar tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna hafa verið kunngjörðar fer af stað sama umræða og í fyrra. Og árið þar áður. Sumum líst ekkert á listann og efast í kjölfarið um dómgreind dómnefndar. Fullt af frábærum plötum er hvergi að finna á sama tíma og fullt af leiðinlegum plötum eru tilnefndar í fullt af flokkum. Fullkomlega rökrétt umræða… ef það væri til tónlistarlegt metrakerfi, mælt með tónlistarlegu málbandi sem dómnefndir kynnu almennt ekki að lesa á.

Málið er að verðlaunahátíðir eru ekki haldnar af örlátu hugsjónafólki. Þær eru haldnar til að hampa þeim sem þjóna best hagsmunum þeirra sem veita viðurkenninguna. Þess vegna er ekkert skrýtið að Beyoncé fái stærstu verðlaunin fyrir plöturnar sínar en ekki Will Oldham. Hún selur miklu fleiri plötur og uppskeran er ekki aðeins stjarnfræðileg auðævi, milljónir aðdáenda og spikfeitur trúlofunarhringur frá Jay-Z, hún hefur líka unnið 17 Grammy-verðlaun, 24 Billboard-verðlaun, tvenn Brit-verðlaun og 9 BET-verðlaun frá því að hún gaf út fyrstu sólóplötuna sína árið 2003. Hún hefur meira að segja verið tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir kvikmyndaleik.

Upphefðin kitlar eflaust hégómagirnd Beyoncé en auðvitað skipta verðlaun engu raunverulegu máli. Ef verðlaun væru marktæk væri til dæmis Shakespeare in Love besta myndin sem kom út árið 1998 og Beautiful Day með U2 besta lagið sem kom út árið 2000. Þeir, sem finnst það eðlilegt, þurfa á hjálp að halda. Þá væri Maroon 5 besta hljómsveitin sem steig fram á sjónarsviðið árið 2004 og Fearless með Taylor Swift besta platan sem kom út árið 2008. Loks væri Cuba Gooding Jr. betri leikari en James Woods, Edward Norton og William Macy, Coolio á meðal bestu rappara sinnar kynslóðar og forseti Bandaríkjanna væri friðarsinni.

Völva 2014 – II. hluti

Hvað gerist á nýju ári?

1. Tölvukerfi Dominos verður hakkað og vandræðalegum smsum frá fyrirtækinu til viðskiptavina lekið.

2. Ravbílavæðingin heldur áfram þegar Toyota kynnir nýjan og endurbættan Rav 4.

3. Eftir að Harpan birtir uppgjör ársins 2013 kvartar einhver.

4. Baltasar Kormákur hefur framleiðslu á framhaldi hasarmyndarinnar 2 Guns. Vinnutitillinn verður: 2 Guns 2: 2 cool 4 school.

5. Manchester United fer vel af stað á Englandi og vinnur þrjá fyrstu leiki sína gegn Millwall, Watford og Barnsley.

6. Eftir að Ísland vinnur Eurovision kemur í ljós að keppnin verður ekki í Hörpu, sem er bókuð undir ráðstefnu félags hundarúnkara.

7. Sjálfkeyrandi bíll kemur á markað. Hann er fljótlega gagnrýndur fyrir að rúnta of hægt niður Laugaveginn og gefa ekki stefnuljós.

8. Miley Cyrus slasast illa í hræðilegu twerk-slysi. Læknar óttast að hún muni aldrei twerka aftur.

9. Greiningardeildir bankanna spá því að innflutningur á kókaíni aukist og verði svipaður og árið 2005.

10. Í kjölfarið á banni við trúboði í grunnskólum Reykjavíkur verður nemendum Háskóla Íslands bannað að taka trúboðann.

Meira á Twitter: @atlifannar 

Völva 2014 – I. hluti

Topp 10 viðburðir árið 2014.

1. Kommentakerfi DV verður lagt niður og landsmönnum býðst að senda hver öðrum kaldar kveðjur með drónum.

2. Megrunarkúrinn: „Éttu skít“ verður kynntur til sögunnar og hampað af helstu sérfræðingum á sviði næringarfræða.

3. Fyrsti rafbíllinn á Íslandi verður rafmagnslaus á Sæbraut. Þegar eigandinn hringir eftir aðstoð verður síminn hans batteríslaus.

4. Hugmyndir um ríkjasamstarf við Grænland eru slegnar af borðinu þegar það kemur í ljós að grasið er ekki grænna þar.

5. Íslensku klukkunni verður ekki breytt í takt við gang sólar, enda í mikilvægu sinki við klukkuna á Klörubar á Kanaríeyjum.

6. Áhugi á lífrænum matvælum hrynur í kjölfarið á því að mynd af þriggja daga gömlum lífrænum banana fer í dreifingu á netinu.

7. Flóttamanni er vísað úr landi vegna þess að hann gleymir ítrekað að bjóða góðan daginn.

8. RÚV opnar veðmálasíðu á textavarpinu.

9. Í örvæntingarfullri leit af fjármagni byrjar Landspítalinn með eigin útgáfu af „Vertu viss“ þar sem líffæri eru gjaldmiðillinn.

10. Ökukennarinn Gylfi Sigurðsson semur við þýska úrvalsdeildarliðið Bayern Munchen – misskilningur sem kostar liðið 13 milljarða.

Meira á Twitter: @atlifannar

Mín dýpstu vefleyndó

Vodafone-lekinn er toppurinn á ísjakanum. Við dælum persónuupplýsingum inn á samfélagsmiðla daglega og það er tímaspursmál hvenær samskipti okkar af Facebook, Snapchat og fleiri samfélagsmiðlum verða gerð opinber. Ekki ætla ég að bíða eins og bjáni eftir félagslegri aftöku. Nei, ég hyggst misnota þetta pláss í víðlesnasta dagblaði landsins og baktryggja mig með því að opinbera mín dýpstu vefleyndó.

Spjallið á Facebook nota ég daglega. Þar spjalla ég við vini og vinnufélaga og dreg ekkert undan. Alþingismenn, sjónvarpsstjörnur, vinir mínir og keppendur í undankeppni Eurovision hafa orðið fyrir barðinu á galgopalegu blaðrinu í mér og við þau vil ég segja að ég meinti örugglega hvert einasta orð. Sorrí.

Snapchat er alvarlegra mál. Einhvern tíma verða myndirnar, sem fólk heldur að gufi upp eftir að viðtakandinn skoðar þær, opinberaðar af kófsveittum Mountain Dew-lepjandi hakkara. Ég svitna við tilhugsunina um að í bunkanum leynist myndir af mér. Myndirnar valda eflaust usla í ákveðnum kreðsum samfélagsins og vil ég til dæmis biðja móður mína afsökunar á hegðun minni — myndin sem sýnir mig ganga örna minna var ætluð vinum. Hún var reyndar tekin í sjálfsvörn þar sem sömu vinir nýttu hugbúnaðinn til að koma hægðum sínum á framfæri, í háskerpu og stundum steríó.

Þá er mikilvægt að fólk viti að nektarmyndin af mér í spegli baðherbergis míns var aðeins ætluð kærustunni minni. Við vorum reyndar ekki kærustupar þegar ég sendi myndina, sem útskýrir viðleitnina til að spenna sem flesta vöðva líkamans og notkun lýsingar til að skerpa á þeim. Ég skammast mín samt ekki enda vakti myndin mikla lukku — og þá sérstaklega fagmannlega útfærður pakkinn sem ég teiknaði á mig miðjan til að hylja það allra heilagasta, enda nýkominn úr kaldri sturtu.

Loks gæti tónlistarmiðillinn Spotify orðið fyrir barðinu á óprúttnum aðilum. Ég hef ekkert að fela þar frekar en á öðrum samfélagsmiðlum: Wrecking Ball með Miley Cyrus er í alvöru uppáhaldslagið mitt.

Aftur um borð í bakþankabátinn

Er byrjaður að skrifa bakþanka. Aftur. Birti fyrsta pistilinn frá því ég hætti á Fréttablaðinu í ágúst á síðasta ári í dag. Þú finnur hann hér.

Leggjum niður mannanafnanefnd

Fyndið að tillaga um að fólk megi nefna börnin sín það sem það vill sé róttæk árið 2013 en þannig er það samt. Það er líka fyndið að sumir miði við lægsta samnefnarann þegar svona tillögur koma fram: „Hvað ef einhver myndi nefna barnið sitt Kúkur Hitler?“

Að sjálfsögðu myndu viðvörunarljós kvikna í kerfinu ef slíkt nafn yrði gefið og það er kannski ágætt að viðkomandi foreldri myndi afhjúpa sig svo snemma gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við sérstakar aðstæður í undantekningartilfellum geti ríkisvaldið gripið inn í.

Auðvitað á valdið fyrst og fremst að vera í höndum foreldra en ekki nefnda úti bæ.

Óttarr Proppé mælti í gær fyrir tillögu þingflokks BF um breytingu á lögum um mannanöfn og að mannanafnanefnd verði lögð niður. Fyrir neðan má sjá brot úr ræðu Óttars:

%d bloggurum líkar þetta: