Mánaðarskipt greinasafn: júní 2014

Löggan sýnir hvernig á að nota samfélagsmiðla

Stefán Eiríksson lögreglustjóri fundaði í dag í utanríkisráðuneytinu með fulltrúum norrænna utanríkisráðuneyta. Stefán fór meðal annars yfir hvernig lögreglan notar samfélagsmiðla til að eiga í samskiptum við almenning en á síðustu misserum hefur embættið hreinlega sýnt hversu öflug tól Facebook, Twitter og Instagram eru séu þau notuð stöðugt og á réttan hátt.

Stefán er að sjálfsögðu á Twitter og tísti um fundinn í dag.

https://twitter.com/logreglustjori/status/473495090636554241

Traust til lögreglunnar hefur aukist um tæp fjögur prósent frá því að Facebook-síða embættisins varð virk í desember árið 2010 skv. Þjóðarpúlsi Capacent. Það er svo sem ekki marktæk hækkun en 83% landsmanna bera mikið traust til lögreglunnar nú og það er erfitt að segja hvort hlutfallið geti hreinlega hækkað. Aðeins Landhelgisgæslan nýtur meira trausts og ekki þarf hún að stöðva partí eða handtaka fólk.

Besta leiðin til að skoða árangurinn sem virkni lögreglunnar á samfélagsmiðlum hefur skilað er að skoða Facebook-síðu embættisins. Lögreglan er dugleg við að leita til almennings eftir aðstoð og undirtektirnar eru undantekningalaust góðar.

Í þessu tilviki var t.d. lýst eftir bíl og á þriðja hundrað manns „tóku þátt“ í leitinni með því að dreifa færslunni:

Þá hefur lögreglan notað húmor í tilsvörum, þvert á samfélagsmiðla, sem skilar sér eflaust í jákvæðara viðhorfi til embættisins.

Allir nota samfélagsmiðla og tækifærin fyrir stofnanir og fyrirtæki eru endalaus. Lögreglan er í mikilvægu þjónustustarfi hjá almenningi og sýnir ákveðna auðmýkt með notkun miðlanna. Auðmýkt sem almenningur kann að meta. Góð samskipti er ekki bara leið til að koma upplýsingum á framfæri heldur gegnsæ leið til að sýna fólki hvað það fær fyrir skattpeningana sína.

Eina sem ég gagnrýni er þetta:

Ekki tengja saman Facebook og Twitter. Þetta er sitthvor miðillinn og virknin er ólík.

Ríkisútvarpið er stöðugt milli tannanna á fólki og hefur ekki fylgt fordæmi lögreglunnar í notkun samfélagsmiðla. Aðeins tæplega 1.600 manns hafa lækað Facebook-síðu RÚV á móti rúmlega 55.000 manns sem læka Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir þættir á RÚV eru þó með fínar Facebook-síður: T.d. Kastljós, fréttastofan og Hraðfréttir. Þrátt fyrir fjölda læka á þessar síður þá er ásýnd stofnunarinnar ekki sterk og samskipti við almenning lítil.

Lögreglan er með tæplega 7.000 fylgjendur á Twitter en RÚV er ekki þar, þó nokkrar deildir innan stofnunarinnar séu á Twitter. Fréttastofa RÚV er t.d. með Twitter-síðu sem birtir sjálfkrafa fyrirsagnir og hlekki í fréttir á ruv.is — eitthvað sem gerir ekkert fyrir notendur síðunnar.

Leiðinlegt var að sjá hversu lítil viðleitni RÚV var til að nota hashtögg til að fóðra umræðuna á Twitter í kosningabaráttunni. Twitter er í mikilli sókn á Íslandi og ég hef áður skrifað um yfirburði miðilsins þegar kemur að opinni umræðu. Besta dæmið um sofandahátt Ríkisútvarpsins var daginn fyrir kjördag þegar oddvitarnar í Reykjavík mættust í beinni útsendingu. Þegar tveggja tíma umræðu lauk var loksins minnst á hashtaggið #kosningar, sem átti að sjálfsögðu að vera í vinstra horni skjásins allan tímann til flokka alla umræðuna á einn stað.

Eflaust má kenna fjárskorti um og þetta horfir til betri vegar skv. Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra. Hann hefur boðað stóraukna sókn í vefmálum og nýmiðlun. Við bíðum spennt en peningar eru ekki allt. Stefnan þarf að vera úthugsuð og röddin skýr. Besta dæmið um það er lögreglan, sem syndir ekki í seðlum en stendur sig samt stórkostlega.

P.s. Ég sótti um stöðu nýmiðlastjóra RÚV á dögunum og þetta kann því að hljóma eins og biturt rant. Ég er hins vegar alls ekki bitur og skrifa þetta sem einlægur áhugamaður um notkun samfélagsmiðla.

Auglýsingar

Síðustu orðin um Framsókn í bili

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir er borgarfulltrúi. Hún vann. Ein Vigdís Hauksdóttir var ekki nóg þannig að Framsóknarflokkurinn sendi okkur aðra. Sveinbjörg er varaþingmaður Vigdísar og ekkert í heiminum meikar jafn mikinn sens.

Eftir að Sveinbjörg lýsti yfir að hún vildi láta afturkalla lóð undir mosku fór af stað atburðarás þar sem orð hennar voru gagnrýnd. Félagar hennar í Framsóknarflokknum, þau Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, virtust t.d. ekki sátt. Formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur hins vegar reynt að draga athygli frá því sem Sveinbjörg sagði, til dæmis með segja í yfirlýsingu á Facebook að hann vilji ekki blanda sér í umræðu hvort Reykjavíkurborg eigi að gefa trúfélögum ókeypis lóðir eða ekki. Um það snérist málið ekki enda eru allir borgarfulltrúar sammála um að þau lög beri að endurskoða.

Þá hefur hann lagt áherslu á gagnrýni á staðsetningu moskunnar:

Ég fær­ist nær því að þetta sé ekki heppi­leg staðsetn­ing held­ur ætti áfram að vera grænt svæði.

Á vef Reykjavíkur eru græn svæði skilgreind svona:

Sum búa yfir fjölskrúðugri upprunalegri náttúru en önnur hafa verið endurmótuð eða hönnuð frá grunni t.d. með garðyrkju, skógrækt og byggingu mannvirkja. Sum svæði bjóða upp á sérstaka þjónustu t.d. íþróttaaðstöðu, fræðslu um náttúru eða sögu, fiskveiðar og margt fleira.

Ég hef allavega aldrei séð neinn spila frisbí-golf þarna á blettinum við hliðina á Miklubraut, fjölförnustu umferðaræðarinnar í Reykjavík, þar sem til stendur að reisa moskuna. En ég keyri svo sem ekki framhjá á hverjum degi.

Málflutningur Sveinbjargar í aðdraganda kosninganna einkenndist af innistæðulausum og fordómafullum upphrópunum, sem flestar voru hraktar. Það eru kirkjur í Abú Dabí og moskur í Lúxemborg. Þvert á það sem hún hélt fram.

Í Stóru málunum, umræðuþætti Stöðvar 2, kvöldið fyrir kjördag spurði Sveinbjörg hvort Íslendingar vildu búa í samfélagi eins og Svíþjóð. Þar væri nýbúið að samþykkja lög sem gera refsivert að þvinga fólk í hjónaband. Þetta sagði hún til að undirstrika þá skoðun að afturkalla ætti lóð undir mosku í Reykjavík.

Í fyrsta lagi: Já, takk. Ég er mjög fylgjandi því að íslenskt samfélag verði líkara því sænska. Ekki bara samfélagið heldur landið sjálft, veðrið, árangur í íþróttum, viðhorf til skapandi greina, framleiðsla o.s.frv.

En Sveinbjörg er lögmaður sem gaf orðum hennar óneitanlega vigt. Til að verða lögmaður þarf maður að fara í háskóla í mörg ár og lögmenn gera meira af því en t.d. framhaldsskólakennarar og sálfræðingar að lesa lög. Ef Sveinbjörg hefði kynnt sér hjúskaparlögin myndi hún vita að það er þegar bannað að þvinga fólk í hjónaband á Íslandi:

Hjúskaparlög

Annað hjóna getur krafist ógildar hjúskapar síns hafi það verið neytt til vígslunnar. Þetta verður ekki mikið skýrara.

Ég er alveg að vera búinn að sætta mig við þetta. Framsókn er ein af sigurvegurum kosninganna en hver tapaði? Jú, auðvitað Jón Gnarr …

Samkvæmt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra eru kosningarnar ekki áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er með um 18% minna fylgi nú en í síðustu kosningum eftir fjögur í minnihluta. Ekki heldur fyrir frambjóðendur Bjartrar framtíðar sem náðu talsvert lakari árangri í kosningunum en þeir máttu búast við m.v. kannanir. Nei, kosningarnar eru áfall fyrir Jón Gnarr að mati Hönnu Birnu sem lét hafa eftirfarandi eftir sér í umræðuþættinum Eyjunni á Stöð 2:

Meiri­hlut­inn féll og niðurstaðan hlýt­ur að vera mikið áfall fyr­ir sitj­andi borg­ar­stjóra, sem menn hafa skil­greint sem vin­sæl­asta borg­ar­stjóra allra tíma, þrátt fyr­ir að hann sé sá borg­ar­stjóri sem hef­ur notið hvað minnst trausts flestra borg­ar­stjóra.

Gott að hún nefnir þetta með traustið. Jón Gnarr skilur við borgina í þriðja sæti á lista MMR yfir traust til stjórnmálaleiðtoga. Tæplega 40% þjóðarinnar bera til hans mjög mikið traust. Aðeins Katrín Jakobsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson eru fyrir ofan Jón. Sama könnun sýndi tæplega 27% traust þjóðarinnar til Hönnu Birnu sem innanríkisráðherra.

Í öllu falli er forvitnilegt kjörtímabil framundan. En nú skiptum við yfir á apa á hjóli:

Road_safety_Orangutan_rides_bike

%d bloggurum líkar þetta: