Greinasafn flokks: Meistaramánuður

Það sem ég hef lært af meistaramánuði

  • Að sleppa því að drekka áfengi er það auðveldasta sem ég hef gert. Það hefur ýmsa kosti í för með sér. Sunnudagar eru raunverulegir dagar. Mánudagar líka. Og aukið úthald skóp sigur í póker á dögunum þar sem við sátum til fjögur, aðfaranótt sunnudags.
  • Að sleppa sælgæti og kökum er ekki auðvelt. Það hefur verið ógeðslega erfitt. Ég ferðast um sælgætisland í draumum mínum og í hvert skipti sem minnsta hungurtilfinning gerir vart við sig byrja ég að hugsa um að snúður með súkkulaði myndi seðja hungrið. Eða poki af kúlusúkki. Eða pitsa. Eða amerískar súkkulaðibitakökur. Eða Þristar. Lindubuff. Kanilsnúðar. Ég við vandamál að stríða.
  • Þegar maður eyðir ekki tímanum í bjórdrykkju er auðveldara að æfa. Mikið. Í mánuðinum hefur vikuplanið verið sirka svona: Mánudagar: Víkingaþrek. Þriðjudagar: Körfubolti og BJJ (Brasilískt Jui Jitsu). Miðvikudagar: Víkingaþrek. Fimmtudagar: Víkingaþrek og BJJ. Föstudagar: Víkingaþrek. Laugardagar: Körfubolti. Sunnudagar: Hvíld. Eða víkingaþrek. Spila þetta samt eftir eyranu, meitla ekkert í stein. Hvíli þegar ég er þreyttur og hliðra tímum til.
  • Eggjahvítur færa prótínhristinginn upp í annan og betri bragðheim. Ég blanda prótíni út í nýmjólk og set skvettu af dönskum eggjahvítum sem ég fann í Bónus. Úr verður himneskur mjólkurhristingur, stútfullur af prótíni.
  • Áfengi er fitandi. Er búinn að léttast um tvö kíló á þessum einum og hálfa mánuði sem liðinn er frá því að síðasti brjórinn var opnaður.
  • Fríhöfnin er óvinurinn. Samstarfskona kom heim frá útlöndum um daginn með poka af litlum Snickers, Bounty og Mars-stykkjum. Hófst þá erfiðasti vinnudagur lífs míns þar sem samstarfsfólk mitt kjammsaði á sælgæti milli þess sem það talaði um hversu bragðgott það var: „Milky Way er snilld“, „Snickers er best“, „ég ætla að fá mér tvö“ o.s.frv.

Framhald síðar.

Auglýsingar

Djöfull var ég vitlaus

Ég var spurður um daginn hvort meistaramánuður hafi breytt lífi mínu. Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni en ég svaraði að framtakið væri frábær leið til að skerpa á hlutunum — skoða hvort maður geti ekki drukkið minni bjór og borðað minna kúlusúkk. Athuga hvort maður sé ekki örugglega að hreyfa sig eins mikið og maður getur ásamt því að sofa nóg, vakna réttum tíma og allt þetta sjitt sem gerir manni gott.

Ég vil samt alls ekki gera lítið úr því að meistaramánuður hefur pottþétt breytt fullt af lífum. Ég held nefnilega að margir þurfi svona framtak til að taka fyrsta skrefið. Meistaramánuður var ekki til þegar ég tók mitt. Það þurfti aðeins meira til. Og þegar ég segi „aðeins“ meina ég „miklu“.

Hér er lítil dæmisaga sem endar illa: Árið 2007 fór ég á Hróarskelduhátíðina með vinum mínum. Það var mjög gaman. Svo gaman að við ákváðum að halda áfram að skemmta okkur í Kaupmannahöfn eftir að hátíðinni lauk. Þegar fjörið stóð sem hæst ákvað ég að príla upp húsvegg á Strikinu. Af hverju veit ég ekki en ég hafði svo sem ekki mikinn tíma til að velta því fyrir mér þar sem ég lá á götunni með brákaðan ökla. Akkúrat. Ég datt að sjálfsögðu niður og kom á hækjum heim. Til að bæta gráu ofan á svart var sprungið á bílnum mínum þegar ég kom til Keflavíkur. Hafið þið prófað að skipta um dekk á öðrum fæti? Ekki ég heldur. Takk, ókunnugi vörubílstjóri sem hjálpaði mér.

Ástæðan fyrir því að ég rifja upp þessa örlagaríku sögu núna er sú að viðbrögð mín voru svo glötuð: Mér var alveg sama. Ég pældi lítið í hvernig brákaði ökklinn myndi hafa áhrif á hreyfigetu mína í framtíðinni vegna þess að ég hélt að það væri útilokað að ég myndi nenna að hreyfa mig í framtíðinni. Ég var löngu hættur að spila körfubolta og nennti ekki að lyfta lóðum. Eina líkamsræktin sem ég stundaði var að skokka upp og niður Laugaveginn um helgar.

Ökklinn angrar mig sem betur fer ekki í dag en þetta er ein af sögunum sem ég rifjaði upp þegar ég ákvað loksins að gera eitthvað að viti. Ég var 25 ára, vaxinn eins og lyfjafeitur, útbrunninn Hollywood-leikari með metnað fyrir næstu helgi. Ég byrjaði á því að spila körfubolta með nokkrum góðum félögum mínum og geri enn. Svo bættist Mjölnir við. Þangað fer ég helst fjórum sinnum í viku í víkingaþrek og í október ætla ég að byrja að láta vini mína tuska mig til í glímu.

Um daginn, þegar víkingaþrekstími stóð sem hæst, fór ég að hugsa um þetta hreyfingarlausa hrúgald sem lá á sófa á Njálsgötunni fyrir nokkrum árum. Í staðinn fyrir að pæla í hvernig ég nennti að keyra mig út á æfingum oft í viku pældi ég í hvernig ég nennti að gera það ekki. Hvernig ég nennti frekar að drekka bjór en spila körfubolta. Hvernig nennti að sofa til tvö á laugardögum í staðinn fyrir að drífa mig á ketilbjölluæfingu og hvernig ég nennti að vera aumur í heimi þar sem ég er beðinn um að hjálpa til við að flytja þrisvar í mánuði.

Djöfull var ég vitlaus.

P.s. Þurfum við ekki almennilegan leigumarkað?

Millimetrum frá bugun

Erfitt lífNú eru þrír dagar eftir af Meistaramánuði og ég er kominn út á ystu nöf. Ég er ekki búinn að borða einn sælgætismola, ekki eina kökusneið, ekki einn bita af hamborgara eða pepperónípitsu í tæpan mánuð og er millimetrum frá því að bugast. Mér er heilsað með nafni á veitinga- og skyndibitastöðum á borð við Saffran, Serranó og Bergsson, ég tek lýsi í svefni og þjálfararnir í Mjölni senda mér sms ef ég er ekki mættur korteri fyrir æfingu. En afleiðingarnar eru stórkostlegar: Gráa bjarmanum, sem sést þegar ég loka augunum, hefur verið skipt út fyrir stillimynd af kökusneið. Með rjóma.

Verslunarferðir hafa aldrei verið erfiðari. Þar sem ég geng fram hjá bakkelsisrekkunum heyri ég djöflaterturnar og kleinurnar hvísla nafn mitt. Sömu sögu er að segja um kexið. Þá beitir sælgætið mig grófu, andlegu ofbeldi, enda hefur því verið dreift taktískt um verslanirnar, sem verður til þess að ég þarf að hlusta á það niðurlægja mig alla verslunarferðina — sérstaklega leiðinlegt vegna þess að yfirleitt finnst mér mjög gaman að kaupa mat. Maður telur sig hólpinn þegar að afgreiðslukassanum er komið en þar blasa við heilu rekkarnir af Þristum, Trompi og Kit Kati í fullkomnum stærðum til að nasla á leiðinni heim. Þvílík Örlög.

Leið mín í gegnum frumskóg Meistaramánuðsins hefur verið grýtt og ég hef svindlað. Ég fór í tvær stórar afmælisveislur þar sem ég fékk mér bjór en aldrei nóg til að finna fyrir ölvun. Þá er ég ekki með fullkomið bókhald yfir góðverkin 30, sem ég ætlaði að gera, en hugsa að þau séu einhvers staðar á milli 20 og 25. Það er tiltölulega auðvelt að gera eitt góðverk á hverjum degi en ég viðurkenni að hinir ýmsu söfnunarbaukar björguðu mér oft fyrir horn.

Þessir dagar hafa verið afar lærdómsríkir. Eyðileggingarmáttur áfengis verður pínlega augljós þegar maður lætur það vera en skemmtanagildi þess einnig. Ég ætla draga úr áfengisneyslunni, velja partíin betur og stuðla þannig að betri líkamlegri heilsu. Þá hefur nauðsyn nammidagsins aldrei verið augljósari en sælgætisþörf mín hefur aldrei verið meiri en nú, eftir tæplega mánaðarbindindi. Hér eftir fer því einn dagur í viku í sælgætis-, köku-, kex- og skyndibitaát.

Merkt , , , , , , , , , ,

Dagar: 5, 6, 7 og 8: Fáránlega auðvelt

Þessi meistaramánuður er það auðveldasta sem ég hef gert. Eina vandamálið er að ég er ekki nógu skapandi í góðverkunum. Þau snúast meira og minna um að gefa peninga. Annars er ég reyndar mjög duglegur við að hleypa bílum í umferðinni, stoppa fyrir fólki, brosa til afgreiðslufólks og vera almennt kurteis. Það er ekki sjálfgefið.

Annars ætla ég að stikla á stóru um síðustu daga. Ég er búinn að kaupa gulrætur af barni sem er að safna fyrir skólaferðalagi, leggja til í söfnun Rauða krossins, setja klink í bauka og í dag setti ég meira segja klink í stöðumæli sem tilheyrði hvorki mér né bílnum mínum. Hvar er Nóbellinn minn?

Ég hélt mig líka alfarið frá búsinu um helgina, þrátt fyrir að hafa farið í gríðarlega skemmtilegt afmæli. Úti í sveit í þokkabót. Og þar voru pönktónleikar. Ég kíkti líka í heimsókn til föður míns sem bauð upp á kvöldmat sem rímaði alveg við takmörk mánaðarins: lamb og sætkartöflumús. Hvar er Nóbellinn hans?

Þá er ég búinn að mæta á æfingar alla dagana nema á sunnudag, sem er heilagastur allra sunnudaga. Las það í bók. Er búinn að kýla í púða, stökkva yfir slár, gera armbeygjur, hnébeygjur, upphífingar, magaæfingar ásamt því að lyfta bjöllum upp og niður og til hliðar. Eins og ég segi: Ekkert mál.

Loks fékk ég niðurstöður úr hjartatékkinu frá í því í síðustu viku. Hjartað lítur vel út samkvæmt tölum á blaði sem ég fékk afhent. Kólestról, púls, nýru, blóðþrýstingur. Þetta er allt þar sem að á að vera. 7, 9, 13 (ég bankaði í alvöru í borðið).

Dagur 4: Góðverkahallinn

Eins og ég sagði ykkur frá í færslu gærdagsins er ég þegar einu góðverki á eftir áætlun. Í dag ætlaði ég að slá tvær flugur í einu höggi leiðrétta þennan vandræðalega halla. Ég fór í Bónus að kaupa mjólk og banana, til að fylgja tveimur einföldum reglum sem gilda á heimili mínu. Sönnunargagn A:

Næst í röðinni á eftir mér við kassann var gömul kona. Þegar ég var búinn að borga fyrir matinn minn uppgvötaði hún að hún hafði gleymt að taka með „einn banana“ eins og hún sagði sjálf. Ég hugsaði með mér að ég gæti nú séð af einum banana og gerði heiðarlega tilraun til að gefa henni einn úr kippunni minni. Bananarnir mínir voru hins vegar allt of grænir fyrir hennar smekk. Hún afþakkaði því, snéri við mér baki og sótt gulann banana. O jæja.

En af hverju keypti ég græna banana? Jú, ég var að bæta á lagerinn. Átti nokkra fullkomlega gula heima en vildi kaupa fleiri sem yrðu orðnir góðir eftir nokkra daga. Ég tek banana mjög alvaralega og samkvæmt útreikningum mínum er ég búinn að borða um 360 til 370 banana á árinu. Sumir segja að ég eigi við vandamál að stríða. Að þeim röddum hlæ ég móðursýkislega og horfi flóttalega til hliðar.

Ég náði því ekki að leiðrétta góðverkahallann í dag. Góðverkið var eitt: Ég keypti þó Bleiku slaufuna, sem er tákn Krabbameinsfélagsins í baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Læt það duga og reyni að gera betur á morgun.

Æfing dagsins í Mjölni var góð; stöðvaþjálfun þar sem unnið var í 40 sekúndur í senn á fimm stöðvum. Tvær æfingar á hverri stöð og hver æfing framkvæmd tvisvar. Byrjaði á split squat með 25 kílóa lóð og armbeygjustiga. Þaðan í einhvers konar klifur í handstöðu og swing með 40 kílóa bjöllu. Næst 40 kg snatch og planki. Á næstu stöð voru gerðar bakfettur og skúrað með 20 kíló lóði í handklæði. Á lokastöðinni var dekkjahopp og mountain climbers. Flettið þessu upp, ef þið þekkið þetta ekki. Þegar hringnum var lokið gerðum við 3×30 sek af burpess og 3×30 af planka.

Þegar æfingin var búin vildi ég gera aðeins auka og tók axlarpressur með 48 kílóum og 40 kílóum. Samtals 35 sinnum ásamt því að klifra upp kaðalinn fjórum sinnum án þess að nota lappir. Eftir það fór ég að grenja og bað um ís á hendurnar mínar. Þegar mér var tjáð að það væri enginn ís í húsinu brást ég við eins og eldri maðurinn í þessu myndbandi:

Í kvöldmat grillaði ég svo nauta-rib eye. Fæstir átta sig á mikilvægi þess að láta kjötið ná stofuhita áður en það er grillað. Ég er ekki einn af þeim eins og þessi mynd sýnir glögglega:

Ahh. Feitt nautakjöt. Í fljótu bragði dettur mér ekki í hug betri leið til að enda dag. Eða …

Dagur 3: Heilagur hvíldardagur

Einhver gáfaðari en ég sagði að maður yrði að hvíla eins duglega og maður æfir. Eftir tvær ansi duglegar æfingar í vikunni (og harðsperrur sem ég sé ekki fram á að losna við í náinni framtíð) ákvað ég sleppa æfingu í dag. Það tengist reyndar meistaramánuði ekki neitt. Ég spila í mesta lagi smá körfubolta á miðvikudögum en sleppti honum líka og hyggst snúa ferskur aftur á morgun.

Ég borðaði einstaklega fínan kjúkling á Hananum í dag ásamt því að háma í mig hnetur og drekka vatn. Ég lofaði að gera 31 eitt góðverk í mánuðinum og er þegar einu góðverki á eftir áætlun þar sem gærdagurinn var góðverkslaus. Ég er slæm manneskja. Í dag reyndi ég að vinna mér inn mjúkt rúm og morgunmat í himnaríki og greiddi í jólagjafasjóð ABC barnahjálpar ásamt því að gefa árlegu þúsundkróna jólagjöfina til starfsins. Ég hef styrkt hina indversku Malleswari Malluvalasa í fjögur eða fimm ár og einn af hápunktum ársins hjá mér er alltaf jólakort og einkunnaspjald frá henni. Hún er svipaður námsmaður og ég var á hennar aldri: Þarf að bæta sig í stærðfræði en er fín í tungumálinu.

Uppáhaldsliturinn hennar er líka svartur. Þau eru augljóslega ekki að kenna henni neitt þarna í Indlandi. Allir vita að svartur er ekki litur heldur grunntónn.

Þó að meistaramánuður standi yfir þá skuluð þið ekki rugla Malleswari við indversku kraftlyftingakonuna Karnam Malleswari, sem vann brons á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000. Hérna er mynd af henni:

Dagur 2: Upprisan

Í morgun vaknaði ég klukkan átta en mátti ekki fá mér morgunmat vegna þess að ég var á leiðinni í hjartaskoðun. Ég varð sem sagt að fasta frá klukkan tíu í gærkvöldi, en svindlaði aðeins á því og laumaðist í nokkrar hnetur fyrir svefninn. Já. Ég er villtur.

Skoðunina fór ég í til að athuga hvort það sé ekki allt í góðu en niðurstöðurnar eru væntanlegar eftir viku. Fyrsta niðurstaðan kom þó strax þegar það kom í ljós að spítalakufl er flík sem ég þarf að festa kaup á hið snarasta. Sönnunargagn A:

Image

Eftir gott spjall við frábærar konur hjá hjartavernd lá leiðin í vinnuna. Borðaði svo lax á Bergssyni (þó ekki Felix (held samt að bróðir hans eigi Bergsson)) og skellti mér á æfingu eftir vinnu. Hún var þung en í rólegri kantinum. Ég var búinn að setja mér takmark fyrir mánuðinn að taka 180 kíló í réttstöðulyftu og ákvað að láta reyna á það í fyrsta skipti eftir æfinguna í dag. Niðurstaðan var ekki fögur, þó hún hafi verið mér í hag að öðru leyti:

Image

Hérna er svo mynd sem sýnir hvernig ég taldi mig líta út á meðan á lyftunni stóð:

Image

Annars var púlið að öðru leyti þannig að við völdum æfingarnar sjálf og gerðum ákveðinn fjölda endurtekninga á mínútu í senn. Unnið í 20 mínútur.

Ég tók réttstöðu, fyrst 110 kg x 10, svo 140 kg x 10. Svo tók við róður með 32 kg bjöllu og snatch með sömu bjöllu. Loks pressur með 28 kg bjöllu og upphýfingar. Eftir þetta voru teknar nokkrar kviðæfingar.

Dagur 1: Fallinn

Fall er fararheill. Ég svaf örlítið yfir mig í morgun, á fyrsta degi meistaramánaðar. Það var vandræðalegt en ég lét það ekki stöðva mig. Dagurinn gekk fullkomlega upp að öðru leyti; ég borðaði stórkostlegan þorsk á hjá Bergssyni og gerði góðverk þegar ég bauð örvingluðum ferðamönnum aðstoð við að borga í stöðumæli (ekki svona klinkmæli, kortasjálfsalin vafðist fyrir þeim).

Eftir vinnu fór ég æfingu í Mjölni sem var bæði hræðileg og frábær — ketilbjölluæfing af gamla skólanum:

Æfingarnar voru þrjár: Squat thrust, róður og jafnfætis stökk. Allar æfingarnar voru framkvæmdar með tveimur bjöllum. Tíminn var ræstur og hver æfing var framkvæmd tíu sinnum, svo átta sinnum, sex, fjórum og tvisvar. Svo var stiginn klifinn aftur; allar æfingarnar framkvæmdar fjórum sinnum, sex sinnum, átta og loks tíu. Ég notaði tvær 24 kílóa bjöllur en í skipti þeim út fyrir tvær 20 kílóa í squat thrust og róðri í síðustu umferðunum. Æfingin tók tæpar 19 mínútur á fínu tempói og ég var nær dauða en lífi eftir á. Það eru vitni að því. Svo gerðum við 30 burpees í lokin. Þessi mynd sýnir hvernig mér leið eftir á:

Eftir æfingu fékk ég mér kjúkling á Saffran. Mér býður við sjálfum mér, hollustan var slík í dag. Á morgun tekur svipað við. Einnig ætla ég að láta skoða í mér hjartað.

Meistaramánuður 2012

Ætla að taka þátt í meistaramánuði í ár og blogga um þrekraunina hér. Hef aldrei tekið þátt og ætla því að setja mér fá en raunsæ markmið. Sé fram á að það verði erfiðast að vera kominn á lappir klukkan átta á hverjum morgni ásamt því að sleppa öllu nammi. Er líka mikill helgarsælkeri og hlakka ekki til pitsulausra sunnudaga.

En hérna eru markmiðin í sjö liðum:

#1. Ekkert áfengi 
Drekk eiginlega aldrei á virkum dögum. Ætla að henda laugardögunum líka út í október og ekki bragða sopa af bjór eða öðrum yndislegum áfengum veigum.

# 2. Ekkert gos
Er hættur að drekka gos en fæ mér stundum kók með pitsu. Ætla að sleppa því. Það verður ekkert mál.

# 3. Ekkert nammi
Borða ekki mikið nammi en finnst það ógeðslega gott. Laugardags-Snickersið verður að bíða þar til október er á enda, rétt eins og föstudags-Þristurinn og sunnudagsísbíltúrinn.

#4. Hollur matur
Er frekar duglegur í holla matnum á virkum dögum en missi mig um helgar. Hyggst taka matarræðið föstum tökum. Ætla að elda hollan mat einu sinni til þrisvar í viku og borða meira af ávöxtum og grænmeti. Skyndibiti skal vera hollur; Serrano, Núðluskálin, Yummi Yummi og Gló eru t.d. í lagi.

#5. Mikil hreyfing
Fer þegar í Víkingaþrek í Mjölni fjórum sinnum í viku og körfubolta að minnsta kosti einu sinni í viku. Ætla að halda mínu striki og reyna að ná eftirfarandi markmiðum:
– Bæta mig í hnébeygju, dauðum pressum og vinna almennt með meiri þyngdir.
– Stökkva hærra og hlaupa hraðar.
– Taka 180 kíló í réttstöðulyftu. Á 170 en hef ekki bætt mig lengi.

#6. Ekkert snooze
Ég fer á lappir um níu en ætla að rífa mig upp þegar klukkan hringir klukkan 8. Er mikill B-maður og þetta verður því mikil þrekraun. Ætla að elda hafragraut á hverjum morgni ásamt því að taka lýsi og borða prótín. Þetta krefst þess einnig að ég fari fyrr að sofa og takmarkið er að vera kominn undir sæng klukkan hálf tólf.

#7. 31 góðverk
Ætla að gera að meðaltali eitt góðverk á dag. Stór og smá. Eflaust aðallega smá. Getur verið allt frá því að setja pening í ABC-baukinn eða hjálpa gamalmenni yfir götu.

%d bloggurum líkar þetta: