Greinasafn flokks: Þungir þankar

Löggan sýnir hvernig á að nota samfélagsmiðla

Stefán Eiríksson lögreglustjóri fundaði í dag í utanríkisráðuneytinu með fulltrúum norrænna utanríkisráðuneyta. Stefán fór meðal annars yfir hvernig lögreglan notar samfélagsmiðla til að eiga í samskiptum við almenning en á síðustu misserum hefur embættið hreinlega sýnt hversu öflug tól Facebook, Twitter og Instagram eru séu þau notuð stöðugt og á réttan hátt.

Stefán er að sjálfsögðu á Twitter og tísti um fundinn í dag.

https://twitter.com/logreglustjori/status/473495090636554241

Traust til lögreglunnar hefur aukist um tæp fjögur prósent frá því að Facebook-síða embættisins varð virk í desember árið 2010 skv. Þjóðarpúlsi Capacent. Það er svo sem ekki marktæk hækkun en 83% landsmanna bera mikið traust til lögreglunnar nú og það er erfitt að segja hvort hlutfallið geti hreinlega hækkað. Aðeins Landhelgisgæslan nýtur meira trausts og ekki þarf hún að stöðva partí eða handtaka fólk.

Besta leiðin til að skoða árangurinn sem virkni lögreglunnar á samfélagsmiðlum hefur skilað er að skoða Facebook-síðu embættisins. Lögreglan er dugleg við að leita til almennings eftir aðstoð og undirtektirnar eru undantekningalaust góðar.

Í þessu tilviki var t.d. lýst eftir bíl og á þriðja hundrað manns „tóku þátt“ í leitinni með því að dreifa færslunni:

Þá hefur lögreglan notað húmor í tilsvörum, þvert á samfélagsmiðla, sem skilar sér eflaust í jákvæðara viðhorfi til embættisins.

Allir nota samfélagsmiðla og tækifærin fyrir stofnanir og fyrirtæki eru endalaus. Lögreglan er í mikilvægu þjónustustarfi hjá almenningi og sýnir ákveðna auðmýkt með notkun miðlanna. Auðmýkt sem almenningur kann að meta. Góð samskipti er ekki bara leið til að koma upplýsingum á framfæri heldur gegnsæ leið til að sýna fólki hvað það fær fyrir skattpeningana sína.

Eina sem ég gagnrýni er þetta:

Ekki tengja saman Facebook og Twitter. Þetta er sitthvor miðillinn og virknin er ólík.

Ríkisútvarpið er stöðugt milli tannanna á fólki og hefur ekki fylgt fordæmi lögreglunnar í notkun samfélagsmiðla. Aðeins tæplega 1.600 manns hafa lækað Facebook-síðu RÚV á móti rúmlega 55.000 manns sem læka Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir þættir á RÚV eru þó með fínar Facebook-síður: T.d. Kastljós, fréttastofan og Hraðfréttir. Þrátt fyrir fjölda læka á þessar síður þá er ásýnd stofnunarinnar ekki sterk og samskipti við almenning lítil.

Lögreglan er með tæplega 7.000 fylgjendur á Twitter en RÚV er ekki þar, þó nokkrar deildir innan stofnunarinnar séu á Twitter. Fréttastofa RÚV er t.d. með Twitter-síðu sem birtir sjálfkrafa fyrirsagnir og hlekki í fréttir á ruv.is — eitthvað sem gerir ekkert fyrir notendur síðunnar.

Leiðinlegt var að sjá hversu lítil viðleitni RÚV var til að nota hashtögg til að fóðra umræðuna á Twitter í kosningabaráttunni. Twitter er í mikilli sókn á Íslandi og ég hef áður skrifað um yfirburði miðilsins þegar kemur að opinni umræðu. Besta dæmið um sofandahátt Ríkisútvarpsins var daginn fyrir kjördag þegar oddvitarnar í Reykjavík mættust í beinni útsendingu. Þegar tveggja tíma umræðu lauk var loksins minnst á hashtaggið #kosningar, sem átti að sjálfsögðu að vera í vinstra horni skjásins allan tímann til flokka alla umræðuna á einn stað.

Eflaust má kenna fjárskorti um og þetta horfir til betri vegar skv. Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra. Hann hefur boðað stóraukna sókn í vefmálum og nýmiðlun. Við bíðum spennt en peningar eru ekki allt. Stefnan þarf að vera úthugsuð og röddin skýr. Besta dæmið um það er lögreglan, sem syndir ekki í seðlum en stendur sig samt stórkostlega.

P.s. Ég sótti um stöðu nýmiðlastjóra RÚV á dögunum og þetta kann því að hljóma eins og biturt rant. Ég er hins vegar alls ekki bitur og skrifa þetta sem einlægur áhugamaður um notkun samfélagsmiðla.

Auglýsingar

Síðustu orðin um Framsókn í bili

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir er borgarfulltrúi. Hún vann. Ein Vigdís Hauksdóttir var ekki nóg þannig að Framsóknarflokkurinn sendi okkur aðra. Sveinbjörg er varaþingmaður Vigdísar og ekkert í heiminum meikar jafn mikinn sens.

Eftir að Sveinbjörg lýsti yfir að hún vildi láta afturkalla lóð undir mosku fór af stað atburðarás þar sem orð hennar voru gagnrýnd. Félagar hennar í Framsóknarflokknum, þau Sigrún Magnúsdóttir þingflokksformaður og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, virtust t.d. ekki sátt. Formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur hins vegar reynt að draga athygli frá því sem Sveinbjörg sagði, til dæmis með segja í yfirlýsingu á Facebook að hann vilji ekki blanda sér í umræðu hvort Reykjavíkurborg eigi að gefa trúfélögum ókeypis lóðir eða ekki. Um það snérist málið ekki enda eru allir borgarfulltrúar sammála um að þau lög beri að endurskoða.

Þá hefur hann lagt áherslu á gagnrýni á staðsetningu moskunnar:

Ég fær­ist nær því að þetta sé ekki heppi­leg staðsetn­ing held­ur ætti áfram að vera grænt svæði.

Á vef Reykjavíkur eru græn svæði skilgreind svona:

Sum búa yfir fjölskrúðugri upprunalegri náttúru en önnur hafa verið endurmótuð eða hönnuð frá grunni t.d. með garðyrkju, skógrækt og byggingu mannvirkja. Sum svæði bjóða upp á sérstaka þjónustu t.d. íþróttaaðstöðu, fræðslu um náttúru eða sögu, fiskveiðar og margt fleira.

Ég hef allavega aldrei séð neinn spila frisbí-golf þarna á blettinum við hliðina á Miklubraut, fjölförnustu umferðaræðarinnar í Reykjavík, þar sem til stendur að reisa moskuna. En ég keyri svo sem ekki framhjá á hverjum degi.

Málflutningur Sveinbjargar í aðdraganda kosninganna einkenndist af innistæðulausum og fordómafullum upphrópunum, sem flestar voru hraktar. Það eru kirkjur í Abú Dabí og moskur í Lúxemborg. Þvert á það sem hún hélt fram.

Í Stóru málunum, umræðuþætti Stöðvar 2, kvöldið fyrir kjördag spurði Sveinbjörg hvort Íslendingar vildu búa í samfélagi eins og Svíþjóð. Þar væri nýbúið að samþykkja lög sem gera refsivert að þvinga fólk í hjónaband. Þetta sagði hún til að undirstrika þá skoðun að afturkalla ætti lóð undir mosku í Reykjavík.

Í fyrsta lagi: Já, takk. Ég er mjög fylgjandi því að íslenskt samfélag verði líkara því sænska. Ekki bara samfélagið heldur landið sjálft, veðrið, árangur í íþróttum, viðhorf til skapandi greina, framleiðsla o.s.frv.

En Sveinbjörg er lögmaður sem gaf orðum hennar óneitanlega vigt. Til að verða lögmaður þarf maður að fara í háskóla í mörg ár og lögmenn gera meira af því en t.d. framhaldsskólakennarar og sálfræðingar að lesa lög. Ef Sveinbjörg hefði kynnt sér hjúskaparlögin myndi hún vita að það er þegar bannað að þvinga fólk í hjónaband á Íslandi:

Hjúskaparlög

Annað hjóna getur krafist ógildar hjúskapar síns hafi það verið neytt til vígslunnar. Þetta verður ekki mikið skýrara.

Ég er alveg að vera búinn að sætta mig við þetta. Framsókn er ein af sigurvegurum kosninganna en hver tapaði? Jú, auðvitað Jón Gnarr …

Samkvæmt Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra eru kosningarnar ekki áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er með um 18% minna fylgi nú en í síðustu kosningum eftir fjögur í minnihluta. Ekki heldur fyrir frambjóðendur Bjartrar framtíðar sem náðu talsvert lakari árangri í kosningunum en þeir máttu búast við m.v. kannanir. Nei, kosningarnar eru áfall fyrir Jón Gnarr að mati Hönnu Birnu sem lét hafa eftirfarandi eftir sér í umræðuþættinum Eyjunni á Stöð 2:

Meiri­hlut­inn féll og niðurstaðan hlýt­ur að vera mikið áfall fyr­ir sitj­andi borg­ar­stjóra, sem menn hafa skil­greint sem vin­sæl­asta borg­ar­stjóra allra tíma, þrátt fyr­ir að hann sé sá borg­ar­stjóri sem hef­ur notið hvað minnst trausts flestra borg­ar­stjóra.

Gott að hún nefnir þetta með traustið. Jón Gnarr skilur við borgina í þriðja sæti á lista MMR yfir traust til stjórnmálaleiðtoga. Tæplega 40% þjóðarinnar bera til hans mjög mikið traust. Aðeins Katrín Jakobsdóttir og Ólafur Ragnar Grímsson eru fyrir ofan Jón. Sama könnun sýndi tæplega 27% traust þjóðarinnar til Hönnu Birnu sem innanríkisráðherra.

Í öllu falli er forvitnilegt kjörtímabil framundan. En nú skiptum við yfir á apa á hjóli:

Road_safety_Orangutan_rides_bike

Talað við ókunnuga

Átta af hverjum tíu Íslendingum eru á Facebook. Þrátt fyrir þetta ótrúlega hlutfall erum við eftirbátar margra þjóða þegar kemur að því að nýta samskiptamiðlana til fulls. Facebook hefur fjölmarga samfélagslega kosti en sem tól til að tengja saman ólíka hópa og skoðanir er það glatað.

Vinir og kunningjar eiga samskipti á Facebook, sem síar út þá sem þú átt í litlum samskiptum við. Ef þú lækar status hjá vini þínum eykurðu líkurnar á því að þú sjáir næsta status frá honum. Þannig gerist það smátt og smátt að veggurinn þinn fyllist af fólki sem þú átt samleið með. Umræðan lokast því inni í ákveðnum hópum og sleppur ekki út nema í undantekningartilfellum. Hvað getum við gert í þessu?

Við byrjum að nota Twitter. Twitter er eins og frjálslynd útgáfa af Facebook — umræða án hindrana í formi vinabeiðna og einkalífsstillinga. Twitter flokkar umræðuna í kassamerki (e. hashtags) og virkar best þegar sérstakir viðburðir eru í gangi. Fótboltaáhugamenn (#fotbolti) voru fyrstu íslensku landnemarnir á Twitter en í dag er hópurinn sem notar samfélagsmiðilinn mjög fjölbreyttur og sístækkandi. Gísli Marteinn (#sunnudagur) og Mikael Torfason (#minskodun) nýta sér til dæmis Twitter til að víkka út umræðuþætti sína á netið með frábærum árangri, Eurovision verður helmingi skemmtilegra (#12stig), eins og Óskarsverðlaunin (#óskarinn) og 25 ára afmæli bjórsins á Íslandi (#bjór25) varð allt í einu persónulegt þegar Íslendingar lýstu fyrstu kynnum sínum af þeim görótta drykk í 140 slögum.

Twitter-byltingin er hafin og fjölmiðlar þurfa að vera vakandi með því að birta kassamerki með beinum útsendingum. Viðw sjáum nefnilega reglulega glötuð tækifæri til að færa umræðuna á annað stig. Fyrstu oddvitakappræðurnar í Reykjavík fóru fram á Stöð 2 á mánudag en kassamerkið í horninu var fjarverandi. Umræðan var því lítil. Kastljós gerði sömu mistök þegar forsætisráðherra settist í rafmagnsstólinn hjá Helga Seljan á þriðjudagskvöld.

Börnum er sagt að tala ekki við ókunnuga en þegar maður verður fullorðinn er það skemmtilegt, gefandi og nauðsynlegt til að víkka sjóndeildarhringinn. Gerum meira af því. Sjáumst á Twitter (@atlifannar).

Stjörnurnar í útlöndum

Harmdauði leikarans Philips Seymour Hoffman minnti mig á hræðileg örlög söngvarans Layne Staley. Hann lést árið 2002 eftir að hafa dópað frá sér flest, þar á meðal farsælan tónlistarferil með hljómsveitinni Alice in Chains. Staley kvaddi þennan heim umkringdur krakkpípum og kókaíni en enginn kvaddi hann. Hann var algjörlega afskiptur þegar hann lést. 39 kílóa brunarúst sem fannst eftir að gjaldkeri lét vita að ekki hafði verið hreyft við bankareikningi hans í viku.

Og ekki var mikil reisn yfir Hoffman. Hann fannst heima hjá sér í stuttbuxum og nærbol með gleraugun á nefinu. Kaldhæðnislega eins og önnur hver persóna sem hann lék hefði stimplað sig út. Talið er að of stór skammtur hafi drepið hann — enda umkringdur heróíni og lyfseðilsskyldum lyfjum þegar hann fannst. Hoffman hafði talað opinskátt um fíkn sína og viðurkennt að vera sjúkur í allt sem var hægt að skrapa saman með kreditkorti.

Við þekkjum stjörnurnar í útlöndum ekki persónulega þrátt fyrir að hafa eytt með þeim meiri tíma en meðal ættingja. Okkur stendur samt ekki á sama þegar þær deyja. Ekki frekar en þegar við lesum sömu hræðilegu fréttir af fólki sem við getum flett upp í Íslendingabók. Útbreiðsla þessara frétta minnir okkur stöðugt á að við erum að glíma við risavaxið vandamál á löngu úreltum forsendum stríðs sem er tapað.

Árið er 2014 og stórkostlegar tækninýjungar líta dagsins ljós á næstu misserum. Líffæri verða þrívíddarprentuð og grædd í fólk (!), fleiri rafmagnsbílar verða framleiddir en nokkru sinni fyrr og flugvélar netvæðast á ógnarhraða. Það er samt skekkja. Við uppfærum símana okkar árlega en horfum í hina áttina á meðan gamaldags lagasetning dælir fíklum í fangelsi fyrir að vera fíklar, gerir fangaverði að meðferðarfulltrúum og leyfir heilbrigðiskerfinu ekki að gera það sem það gerir best: Að lækna veikt fólk.

Víbrandi afturendi Miley Cyrus

Það sem gerðist í Smáralind síðdegis sunnudaginn fimmta janúar var yfirlýsing. Unga fólkið var að segja okkur sem hlustuðum á Ladda á vínyl og drukkum Ískóla að byltingin sé handan við hornið og að hún verði fönguð á sex sekúndna myndband á Vine-síðu Jerome Jarre.

Byltingin verður ekki blóðug. Við þurfum ekki einu sinni að kalla hana byltingu. Kynslóðaskipti er nær lagi og þau eru óumflýjanleg. Það sem gerir væntanleg kynslóðaskipti merkilegri en þau síðustu er að nú mætir á svæðið kynslóð sem er tilbúin að byrja upp á nýtt. Til fjandans með pappírsmiðla, línulega sjónvarpsdagskrá og Spaugstofuna — þau vilja nýtt upphaf. Þau nenna ekki einu sinni að nota Facebook vegna þess að ég og hinir steingervingarnir erum þar að rífast um nasisma.

Þessi kynslóð hefur aldrei heyrt um dagblöð. Hún veit ekki einu sinni að það er hægt að nota pappír annars staðar en klofvega á klósetti. Hún skoðar ekki hefðbundna fréttamiðla — fjandinn hafi það, hún hefur ekki lesið neitt sem er lengra en 140 slaga tíst á Twitter. Þessi tiltekna bylting borðar ekki börn — hún er gerð af börnum sem hugsa á svo miklu róttækari hátt en kynslóðin þar á undan, sem trúir enn að gamaldags draslið sem hún notar sé ómissandi.

Sem dæmi um kraftinn sem leysist úr læðingi við kynslóðaskiptin þá tók Vine-stjörnurnar tvær aðeins sex sekúndur að troða fleiri ungmennum inn í Smáralind en jólin og janúarútsölurnar til samans. Þessar sex sekúndur höfðuðu betur til framtíðarneytenda þjóðarinnar en allar heilsíðuauglýsingar síðasta árs. Þessir strákar búa yfir meiri mætti en rúmast í öllum fjárhagsáætlunum sem hafa verið settar saman á Íslandi síðasta áratuginn.

Við sem fæddumst á síðustu öld þurfum samt ekki að leggja niður störf. Við eigum eflaust nokkur góð ár eftir sem við getum nýtt í að rífast á Facebook, hamstra magnesíum og góna á víbrandi afturenda Miley Cyrus, eins og risaeðlurnar sem störðu vanmáttugar á loftsteininn sem tortímdi þeim.

Ef verðlaun væru marktæk

Allir vita að það er undarlegt að veita verðlaun fyrir árangur þar sem mælieiningin er huglæg. Þess vegna gerir það enginn. Helstu verðlaunahátíðir heims veita nokkurs konar söluverðlaun enda ógjörningur að mæla með óyggjandi hætti hvaða plata eða kvikmynd er best. Gæði eru mæld á fjölbreyttan hátt en lokaniðurstaðan ræðst ávallt af huglægu mati fólks, sem stjórnast af ótal tilfinningum.

Nú þegar tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna hafa verið kunngjörðar fer af stað sama umræða og í fyrra. Og árið þar áður. Sumum líst ekkert á listann og efast í kjölfarið um dómgreind dómnefndar. Fullt af frábærum plötum er hvergi að finna á sama tíma og fullt af leiðinlegum plötum eru tilnefndar í fullt af flokkum. Fullkomlega rökrétt umræða… ef það væri til tónlistarlegt metrakerfi, mælt með tónlistarlegu málbandi sem dómnefndir kynnu almennt ekki að lesa á.

Málið er að verðlaunahátíðir eru ekki haldnar af örlátu hugsjónafólki. Þær eru haldnar til að hampa þeim sem þjóna best hagsmunum þeirra sem veita viðurkenninguna. Þess vegna er ekkert skrýtið að Beyoncé fái stærstu verðlaunin fyrir plöturnar sínar en ekki Will Oldham. Hún selur miklu fleiri plötur og uppskeran er ekki aðeins stjarnfræðileg auðævi, milljónir aðdáenda og spikfeitur trúlofunarhringur frá Jay-Z, hún hefur líka unnið 17 Grammy-verðlaun, 24 Billboard-verðlaun, tvenn Brit-verðlaun og 9 BET-verðlaun frá því að hún gaf út fyrstu sólóplötuna sína árið 2003. Hún hefur meira að segja verið tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir kvikmyndaleik.

Upphefðin kitlar eflaust hégómagirnd Beyoncé en auðvitað skipta verðlaun engu raunverulegu máli. Ef verðlaun væru marktæk væri til dæmis Shakespeare in Love besta myndin sem kom út árið 1998 og Beautiful Day með U2 besta lagið sem kom út árið 2000. Þeir, sem finnst það eðlilegt, þurfa á hjálp að halda. Þá væri Maroon 5 besta hljómsveitin sem steig fram á sjónarsviðið árið 2004 og Fearless með Taylor Swift besta platan sem kom út árið 2008. Loks væri Cuba Gooding Jr. betri leikari en James Woods, Edward Norton og William Macy, Coolio á meðal bestu rappara sinnar kynslóðar og forseti Bandaríkjanna væri friðarsinni.

Mín dýpstu vefleyndó

Vodafone-lekinn er toppurinn á ísjakanum. Við dælum persónuupplýsingum inn á samfélagsmiðla daglega og það er tímaspursmál hvenær samskipti okkar af Facebook, Snapchat og fleiri samfélagsmiðlum verða gerð opinber. Ekki ætla ég að bíða eins og bjáni eftir félagslegri aftöku. Nei, ég hyggst misnota þetta pláss í víðlesnasta dagblaði landsins og baktryggja mig með því að opinbera mín dýpstu vefleyndó.

Spjallið á Facebook nota ég daglega. Þar spjalla ég við vini og vinnufélaga og dreg ekkert undan. Alþingismenn, sjónvarpsstjörnur, vinir mínir og keppendur í undankeppni Eurovision hafa orðið fyrir barðinu á galgopalegu blaðrinu í mér og við þau vil ég segja að ég meinti örugglega hvert einasta orð. Sorrí.

Snapchat er alvarlegra mál. Einhvern tíma verða myndirnar, sem fólk heldur að gufi upp eftir að viðtakandinn skoðar þær, opinberaðar af kófsveittum Mountain Dew-lepjandi hakkara. Ég svitna við tilhugsunina um að í bunkanum leynist myndir af mér. Myndirnar valda eflaust usla í ákveðnum kreðsum samfélagsins og vil ég til dæmis biðja móður mína afsökunar á hegðun minni — myndin sem sýnir mig ganga örna minna var ætluð vinum. Hún var reyndar tekin í sjálfsvörn þar sem sömu vinir nýttu hugbúnaðinn til að koma hægðum sínum á framfæri, í háskerpu og stundum steríó.

Þá er mikilvægt að fólk viti að nektarmyndin af mér í spegli baðherbergis míns var aðeins ætluð kærustunni minni. Við vorum reyndar ekki kærustupar þegar ég sendi myndina, sem útskýrir viðleitnina til að spenna sem flesta vöðva líkamans og notkun lýsingar til að skerpa á þeim. Ég skammast mín samt ekki enda vakti myndin mikla lukku — og þá sérstaklega fagmannlega útfærður pakkinn sem ég teiknaði á mig miðjan til að hylja það allra heilagasta, enda nýkominn úr kaldri sturtu.

Loks gæti tónlistarmiðillinn Spotify orðið fyrir barðinu á óprúttnum aðilum. Ég hef ekkert að fela þar frekar en á öðrum samfélagsmiðlum: Wrecking Ball með Miley Cyrus er í alvöru uppáhaldslagið mitt.

Hvað með mig?

Guðmundur Steingrímsson mælti fyrir bjartari morgnum á Alþingi í dag. Í stuttu máli snýst málið um að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Klukkan á Íslandi er nefnilega rangt skráð miðað við gang sólar og hefur verið frá 1968.

Ásamt því að vísa í gang sólar vísaði Gummi í fjölmargar rannsóknir sem sýna að líkamsklukkan fer mjög eftir gangi sólar. Unglingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir truflunum hvað þetta varðar en rangt skráð klukka getur til dæmis haft slæm áhrif á einbeitingu.

Það er alveg þess virði að skoða hvað veldur því Íslendingar noti meira af þunglyndislyfjum en aðrar þjóðir. Er það bara einskær tilviljun eða hefur það eitthvað að gera með þessa viðvarandi sólarskekkju?

Þau sem vilja kynna sér málið betur bendi ég þessa grein eftir Erlu Björnsdóttur sálfræðing.

Þetta er sem sagt lýðheilsumál, stutt af rannsóknum og auðvitað gangi sólar, sem enginn þingmaður getur breytt — sama hversu mikið hann talar í ræðustól. Það var því pínu fyndið að fylgjast með umræðunum sem sköpuðust eftir að málið var lagt fyrir þingið.

Katrín Júlíusdóttir sagðist vera fædd í nóvember og finndist því gott að vakna í myrkri, kveikja á kertum og fara á rómantísku nótunum inn í daginn. Vilhjálmur Árnason sagði ung börn vakna klukkan hálf sjö, sjö og spurði: „Er ég sem sagt að fara að vakna klukkan sex með syni mínum?“ Hægt er að horfa á umræðuna hér.

Sem sagt: Rannsóknir sýna heilsufarslegan ávinning fjöldans og sjálf sólin sýnir okkur þegar hún er hæst á lofti klukkan hálf tvö að við erum að gera eitthvað vitlaust … En hvað gerir þetta frumvarp fyrir mig persónulega?

Myrkir í athugasemdum

Opin athugasemdakerfi á fréttasíðum er tilraun sem mistókst. Fjölmiðlar hafa hvorki tíma né fjármagn til að fylgjast með umræðunni og gera viðeigandi ráðstafanir þegar hún er komin út fyrir siðferðismörk, eins gerist ítrekað og gerðist síðast í tengslum við uppsagnirnar á RÚV.

Athugasemdir geta stundum bætt upplýsingum við fréttir og varpað ljósi á nýja vinkla en raunin er því miður sú að stærsti hluti þeirra sem eru virkir í athugasemdum kunna ekki með málfrelsið að fara og haga sér eins og siðlausir fávitar.

Ég tek undir það sem Logi Bergmann sagði í Sunnudagsmorgni um daginn og spyr hvort það sé eitthvað lykilatriði í lýðræðissamfélagi að geta nýtt fréttasíður í að drulla yfir annað fólk? Þetta var fyndið fyrst, enda afgreitt í Skaupinu á sínum tíma en nú má fara að skrúfa fyrir þetta. Er það ekki? Eða er hægt að gera eitthvað annað? Myndi einhver sakna kommentakerfanna? Hver þá? Satan?

Rót alls ills

Það er ekkert leyndarmál að hvítir karlmenn eru stærsta plága sem nokkurn tíma hefur herjað á plánetuna Jörð. Þeir smíðuðu kerfið sem við búum við í dag og gerir þá ríku stöðugt ríkari. Kerfið er svo gallað og ósjálfbært að það hefur gengið hratt á auðlindir heimsins, útrýmt dýrategundum og gert lífsskilyrði í ákveðnum hlutum heimsins óbærilegt.

Ég hef lengi velt fyrir mér af hverju þetta er svona. Lítið breytist þó ég vilji alls ekki gera lítið úr réttindabaráttu hinna ýmsu hópa sem hafa skilað góðum árangri. Svo góðum að ástandið nálgast að vera viðunandi sums staðar í heiminum. En hvítu karlarnir eiga ennþá meirihluta auðæfa heimsins, þeir eru í áhrifastöðum úti um allt og eru ekki að fara að láta völdin af hendi. Hvernig veit ég það? Ég er einn af þeim.

Til að finna rót vandans þarf að leita langt aftur í tímann. Mjög langt. Hvað veldur því að ár eftir ár, áratug eftir áratug, öld eftir öld leggjum við allt traust okkar á herðar sama þjóðfélagshópsins, sem launar okkur greiðann með óstjórn, kreppum og veseni? Það er nánast eins og það sé búið að þjálfa okkur í að efast ekki um hæfni hvítu karlanna sem eru með öll svörin á reiðum höndum. Nákvæmlega það hefur átt sér stað — þjálfunin hefst strax í barnæsku og þjálfarinn er hvítasti karl allra hvítingja: Jólasveinninn.

Sögu jólasveins nútímans, þessum síkáta á Norðurpólnum, má rekja aftur til 19. aldar. Það er skemmtileg tilviljun því það er einmitt öldin sem allt byrjaði að fara til fjandans: Kapítalisminn var kominn úr böndunum, mannkynið náði milljarðinum, Napóleón var með læti og helvítið hann Frederick Mors fæddist.

Þá varð jólasveinninn líka eins og hann er í dag: Gangandi, úrelt táknmynd fyrir feita auðjöfurinn. Hann á nóg handa öllum en aðeins þeir sem standast óhóflegar kröfur hans fá frá honum litlar gjafir einu sinni ári. Og hann áskilur sér rétt til að fylgjast með frammistöðu þinni, dag og nótt. Þrátt fyrir að hann gefi milljónum barna gjafir á hverju ári gengur aldrei á digra sjóði hans sem virðast ótæmandi. Ofan á það þá mismunar jólasveinninn börnum grimmilega: Rík börn fá miklu flottari gjafir en þau fátæku.

Kæru lesendur, látum ekki þennan síkáta, kókþambandi gígantista plata okkur. Fyrirheit hans kunna að vera fögur en þegar á botninn er hvolft eru skilaboðin skýr: Gerðu það sem ég segi og ég gef þér litla gjöf. Betri táknmynd fyrir gallað kerfi er vandfundin.

%d bloggurum líkar þetta: