Mín dýpstu vefleyndó

Vodafone-lekinn er toppurinn á ísjakanum. Við dælum persónuupplýsingum inn á samfélagsmiðla daglega og það er tímaspursmál hvenær samskipti okkar af Facebook, Snapchat og fleiri samfélagsmiðlum verða gerð opinber. Ekki ætla ég að bíða eins og bjáni eftir félagslegri aftöku. Nei, ég hyggst misnota þetta pláss í víðlesnasta dagblaði landsins og baktryggja mig með því að opinbera mín dýpstu vefleyndó.

Spjallið á Facebook nota ég daglega. Þar spjalla ég við vini og vinnufélaga og dreg ekkert undan. Alþingismenn, sjónvarpsstjörnur, vinir mínir og keppendur í undankeppni Eurovision hafa orðið fyrir barðinu á galgopalegu blaðrinu í mér og við þau vil ég segja að ég meinti örugglega hvert einasta orð. Sorrí.

Snapchat er alvarlegra mál. Einhvern tíma verða myndirnar, sem fólk heldur að gufi upp eftir að viðtakandinn skoðar þær, opinberaðar af kófsveittum Mountain Dew-lepjandi hakkara. Ég svitna við tilhugsunina um að í bunkanum leynist myndir af mér. Myndirnar valda eflaust usla í ákveðnum kreðsum samfélagsins og vil ég til dæmis biðja móður mína afsökunar á hegðun minni — myndin sem sýnir mig ganga örna minna var ætluð vinum. Hún var reyndar tekin í sjálfsvörn þar sem sömu vinir nýttu hugbúnaðinn til að koma hægðum sínum á framfæri, í háskerpu og stundum steríó.

Þá er mikilvægt að fólk viti að nektarmyndin af mér í spegli baðherbergis míns var aðeins ætluð kærustunni minni. Við vorum reyndar ekki kærustupar þegar ég sendi myndina, sem útskýrir viðleitnina til að spenna sem flesta vöðva líkamans og notkun lýsingar til að skerpa á þeim. Ég skammast mín samt ekki enda vakti myndin mikla lukku — og þá sérstaklega fagmannlega útfærður pakkinn sem ég teiknaði á mig miðjan til að hylja það allra heilagasta, enda nýkominn úr kaldri sturtu.

Loks gæti tónlistarmiðillinn Spotify orðið fyrir barðinu á óprúttnum aðilum. Ég hef ekkert að fela þar frekar en á öðrum samfélagsmiðlum: Wrecking Ball með Miley Cyrus er í alvöru uppáhaldslagið mitt.

Auglýsingar

Aftur um borð í bakþankabátinn

Er byrjaður að skrifa bakþanka. Aftur. Birti fyrsta pistilinn frá því ég hætti á Fréttablaðinu í ágúst á síðasta ári í dag. Þú finnur hann hér.

Leggjum niður mannanafnanefnd

Fyndið að tillaga um að fólk megi nefna börnin sín það sem það vill sé róttæk árið 2013 en þannig er það samt. Það er líka fyndið að sumir miði við lægsta samnefnarann þegar svona tillögur koma fram: „Hvað ef einhver myndi nefna barnið sitt Kúkur Hitler?“

Að sjálfsögðu myndu viðvörunarljós kvikna í kerfinu ef slíkt nafn yrði gefið og það er kannski ágætt að viðkomandi foreldri myndi afhjúpa sig svo snemma gagnvart barnaverndaryfirvöldum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að við sérstakar aðstæður í undantekningartilfellum geti ríkisvaldið gripið inn í.

Auðvitað á valdið fyrst og fremst að vera í höndum foreldra en ekki nefnda úti bæ.

Óttarr Proppé mælti í gær fyrir tillögu þingflokks BF um breytingu á lögum um mannanöfn og að mannanafnanefnd verði lögð niður. Fyrir neðan má sjá brot úr ræðu Óttars:

Hvað með mig?

Guðmundur Steingrímsson mælti fyrir bjartari morgnum á Alþingi í dag. Í stuttu máli snýst málið um að seinka klukkunni á Íslandi um eina klukkustund. Klukkan á Íslandi er nefnilega rangt skráð miðað við gang sólar og hefur verið frá 1968.

Ásamt því að vísa í gang sólar vísaði Gummi í fjölmargar rannsóknir sem sýna að líkamsklukkan fer mjög eftir gangi sólar. Unglingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir truflunum hvað þetta varðar en rangt skráð klukka getur til dæmis haft slæm áhrif á einbeitingu.

Það er alveg þess virði að skoða hvað veldur því Íslendingar noti meira af þunglyndislyfjum en aðrar þjóðir. Er það bara einskær tilviljun eða hefur það eitthvað að gera með þessa viðvarandi sólarskekkju?

Þau sem vilja kynna sér málið betur bendi ég þessa grein eftir Erlu Björnsdóttur sálfræðing.

Þetta er sem sagt lýðheilsumál, stutt af rannsóknum og auðvitað gangi sólar, sem enginn þingmaður getur breytt — sama hversu mikið hann talar í ræðustól. Það var því pínu fyndið að fylgjast með umræðunum sem sköpuðust eftir að málið var lagt fyrir þingið.

Katrín Júlíusdóttir sagðist vera fædd í nóvember og finndist því gott að vakna í myrkri, kveikja á kertum og fara á rómantísku nótunum inn í daginn. Vilhjálmur Árnason sagði ung börn vakna klukkan hálf sjö, sjö og spurði: „Er ég sem sagt að fara að vakna klukkan sex með syni mínum?“ Hægt er að horfa á umræðuna hér.

Sem sagt: Rannsóknir sýna heilsufarslegan ávinning fjöldans og sjálf sólin sýnir okkur þegar hún er hæst á lofti klukkan hálf tvö að við erum að gera eitthvað vitlaust … En hvað gerir þetta frumvarp fyrir mig persónulega?

Myrkir í athugasemdum

Opin athugasemdakerfi á fréttasíðum er tilraun sem mistókst. Fjölmiðlar hafa hvorki tíma né fjármagn til að fylgjast með umræðunni og gera viðeigandi ráðstafanir þegar hún er komin út fyrir siðferðismörk, eins gerist ítrekað og gerðist síðast í tengslum við uppsagnirnar á RÚV.

Athugasemdir geta stundum bætt upplýsingum við fréttir og varpað ljósi á nýja vinkla en raunin er því miður sú að stærsti hluti þeirra sem eru virkir í athugasemdum kunna ekki með málfrelsið að fara og haga sér eins og siðlausir fávitar.

Ég tek undir það sem Logi Bergmann sagði í Sunnudagsmorgni um daginn og spyr hvort það sé eitthvað lykilatriði í lýðræðissamfélagi að geta nýtt fréttasíður í að drulla yfir annað fólk? Þetta var fyndið fyrst, enda afgreitt í Skaupinu á sínum tíma en nú má fara að skrúfa fyrir þetta. Er það ekki? Eða er hægt að gera eitthvað annað? Myndi einhver sakna kommentakerfanna? Hver þá? Satan?

Rót alls ills

Það er ekkert leyndarmál að hvítir karlmenn eru stærsta plága sem nokkurn tíma hefur herjað á plánetuna Jörð. Þeir smíðuðu kerfið sem við búum við í dag og gerir þá ríku stöðugt ríkari. Kerfið er svo gallað og ósjálfbært að það hefur gengið hratt á auðlindir heimsins, útrýmt dýrategundum og gert lífsskilyrði í ákveðnum hlutum heimsins óbærilegt.

Ég hef lengi velt fyrir mér af hverju þetta er svona. Lítið breytist þó ég vilji alls ekki gera lítið úr réttindabaráttu hinna ýmsu hópa sem hafa skilað góðum árangri. Svo góðum að ástandið nálgast að vera viðunandi sums staðar í heiminum. En hvítu karlarnir eiga ennþá meirihluta auðæfa heimsins, þeir eru í áhrifastöðum úti um allt og eru ekki að fara að láta völdin af hendi. Hvernig veit ég það? Ég er einn af þeim.

Til að finna rót vandans þarf að leita langt aftur í tímann. Mjög langt. Hvað veldur því að ár eftir ár, áratug eftir áratug, öld eftir öld leggjum við allt traust okkar á herðar sama þjóðfélagshópsins, sem launar okkur greiðann með óstjórn, kreppum og veseni? Það er nánast eins og það sé búið að þjálfa okkur í að efast ekki um hæfni hvítu karlanna sem eru með öll svörin á reiðum höndum. Nákvæmlega það hefur átt sér stað — þjálfunin hefst strax í barnæsku og þjálfarinn er hvítasti karl allra hvítingja: Jólasveinninn.

Sögu jólasveins nútímans, þessum síkáta á Norðurpólnum, má rekja aftur til 19. aldar. Það er skemmtileg tilviljun því það er einmitt öldin sem allt byrjaði að fara til fjandans: Kapítalisminn var kominn úr böndunum, mannkynið náði milljarðinum, Napóleón var með læti og helvítið hann Frederick Mors fæddist.

Þá varð jólasveinninn líka eins og hann er í dag: Gangandi, úrelt táknmynd fyrir feita auðjöfurinn. Hann á nóg handa öllum en aðeins þeir sem standast óhóflegar kröfur hans fá frá honum litlar gjafir einu sinni ári. Og hann áskilur sér rétt til að fylgjast með frammistöðu þinni, dag og nótt. Þrátt fyrir að hann gefi milljónum barna gjafir á hverju ári gengur aldrei á digra sjóði hans sem virðast ótæmandi. Ofan á það þá mismunar jólasveinninn börnum grimmilega: Rík börn fá miklu flottari gjafir en þau fátæku.

Kæru lesendur, látum ekki þennan síkáta, kókþambandi gígantista plata okkur. Fyrirheit hans kunna að vera fögur en þegar á botninn er hvolft eru skilaboðin skýr: Gerðu það sem ég segi og ég gef þér litla gjöf. Betri táknmynd fyrir gallað kerfi er vandfundin.

Fyndið

Svona í ljósi þess að RÚV er búið að skilgreina hugtakið LOL þá hvet ég fólk til að skoða þetta fyrst:

Og svo þetta:

 

Sárþjáði morðhvalurinn Tilikum

Er búinn að sjá heimildarmyndina Blackfish auglýsta á vefsíðum og í sjónvarpinu undanfarna daga. Hef samt ekki fundið neinar upplýsingar um hvenær hún er sýnd. Ég fann hana svo bara í leigu Vodafone. Gott og vel.

Í myndinni er lagt út frá sorglegu atviki sem átti sér stað í Sea World í Orlando árið 2010 þegar háhyrningurinn Tilikum drap þjálfarann Dawn Brancheau. Talsmenn Sea World reyndu ítrekað að koma röngum upplýsingum á framfæri um atvikið: Brancheau átti að hafa gert mistök og dottið ofan í laugina en raunin var sú að Tilikum beit í hendi hennar, dró hana út í laugina, limlesti og drap.

Virkilega ógeðslegu ljósi er varpað á þennan bransa. Rætt er við marga fyrrverandi þjálfara í Sea World og farið yfir hvernig háhyringarnir eru í raun tifandi tímasprengjur vegna geðrænna kvilla sem einangrunin virðist valda. Tilikum hafði áður drepið og fjölmörg dæmi eru árásargjarna hegðun háhyrninganna og fleiri þjálfarar hafa látið lífið eftir árás þessara risavöxnu skepna.

Blackfish er frábær mynd. Horfið á hana! og ef þið þurfið eitthvað til að kítla þjóðerniskenndina þá kemur fram í myndinni að Tilikum var fangaður við Íslandsstrendur á níunda áratugnum, eftir að Sea World var bannað að fanga háhyrninga við strendur Washington-fylkis.

Bjórfrétt Vísis var frábær

Auðvitað hafði frétt Vísis, um bjórsumbl leikmanna króatíska liðsins, engin áhrif á leikinn á þriðjudaginn. Það heldur því enginn fram í alvöru. Strákarnir töpuðu þessum leik alveg sjálfir og það er sárast fyrir þá sjálfa, enda frábærir leikmenn sem náðu stórkostlegum árangri í undankeppninni.

Í umræðunni um fréttina hefur ýmislegt komið mér á óvart. Ótrúlega margir voru tilbúnir að fullyrða að fréttin hafi verið hugarburður óheiðarlegs blaðamanns; uppspuni frá rótum sem var þó með nákvæmar lýsingar á magni bjórsins og hverjir drukku hann. Sama fólk var tilbúið að afskrifa þá staðreynd að þjálfari liðsins hafði hagsmuna að gæta þegar hann hafnaði innihaldi fréttarinnar. Hann hefði kannski bara átt að viðurkenna allt og setja átta leikmenn, þar af nokkra lykilmenn í bann fyrir agabrot, sem hefði verið óumflýjanlegt.

Og þegar hótelstjórinn blandaði sér í málið fannst sama fólki sem síðasti naglinn hefði verið rekinn í kistu fréttarinnar. Og miðilsins alls. Ég skal segja svolítið um hótel: Trúnaður er þeim mikilvægur. Sérstaklega þegar kemur að stjörnum — hvort sem þær spila fótbolta eða leika í kvikmyndum. Ef lekinn kom beint frá starfsmanni hótelsins og ratar í heimsfréttirnar er um gríðarlega alvarlegt innanhúsmál að ræða. Það vissi hótelstjórinn og viðbrögð hans voru stórskrýtin:

Það er allt frá A til Ö á hótelinu, við skráum allt á reikninga. Samlokur, gos og sælgæti var á reikningnum, annað ekki. Hér er allt uppi á borði og ekkert falið, við vinnum eftir settum reglum.

Góð saga. Ef hún væri sönn. Enginn hótelstjóri myndi draga upp reikninginn og þylja upp fyrir blaðamann hvað er á honum. Þetta getur ekki verið annað yfirklór. Aumt yfirklór í þokkabót því það gerir blaðamanninn að lygara. Og það, kæru vinir, er atvinnurógur af verstu sort. Blaðamaður án trúverðugleika hefur í raun ekkert. Svo má auðvitað velta fyrir sér hversu vitlausir leikmenn þurfi að vera til að skrifa tugi bjóra á herbergið sitt, sem er skráð á knattspyrnusamband lands síns.

Málið er rosalega einfalt: Vísir birti frétt. Frábæra frétt. Svo góða frétt að hún setti allt á hliðina. Skiljanlega. Ég trúði fréttinni þegar ég las hana fyrst og hef auk þess mínar eigin heimildir fyrir sannleiksgildi hennar.

Stóra spurningin sem mér finnst að fólk eigi að spyrja sig er hinsvegar þessi: Hefði Vísir átt að sleppa því að birta fréttina af ótta við áhrif hennar? Og er þá ekki betra pakka bara saman og hætta þessu?

Það sem ég hef lært af meistaramánuði

  • Að sleppa því að drekka áfengi er það auðveldasta sem ég hef gert. Það hefur ýmsa kosti í för með sér. Sunnudagar eru raunverulegir dagar. Mánudagar líka. Og aukið úthald skóp sigur í póker á dögunum þar sem við sátum til fjögur, aðfaranótt sunnudags.
  • Að sleppa sælgæti og kökum er ekki auðvelt. Það hefur verið ógeðslega erfitt. Ég ferðast um sælgætisland í draumum mínum og í hvert skipti sem minnsta hungurtilfinning gerir vart við sig byrja ég að hugsa um að snúður með súkkulaði myndi seðja hungrið. Eða poki af kúlusúkki. Eða pitsa. Eða amerískar súkkulaðibitakökur. Eða Þristar. Lindubuff. Kanilsnúðar. Ég við vandamál að stríða.
  • Þegar maður eyðir ekki tímanum í bjórdrykkju er auðveldara að æfa. Mikið. Í mánuðinum hefur vikuplanið verið sirka svona: Mánudagar: Víkingaþrek. Þriðjudagar: Körfubolti og BJJ (Brasilískt Jui Jitsu). Miðvikudagar: Víkingaþrek. Fimmtudagar: Víkingaþrek og BJJ. Föstudagar: Víkingaþrek. Laugardagar: Körfubolti. Sunnudagar: Hvíld. Eða víkingaþrek. Spila þetta samt eftir eyranu, meitla ekkert í stein. Hvíli þegar ég er þreyttur og hliðra tímum til.
  • Eggjahvítur færa prótínhristinginn upp í annan og betri bragðheim. Ég blanda prótíni út í nýmjólk og set skvettu af dönskum eggjahvítum sem ég fann í Bónus. Úr verður himneskur mjólkurhristingur, stútfullur af prótíni.
  • Áfengi er fitandi. Er búinn að léttast um tvö kíló á þessum einum og hálfa mánuði sem liðinn er frá því að síðasti brjórinn var opnaður.
  • Fríhöfnin er óvinurinn. Samstarfskona kom heim frá útlöndum um daginn með poka af litlum Snickers, Bounty og Mars-stykkjum. Hófst þá erfiðasti vinnudagur lífs míns þar sem samstarfsfólk mitt kjammsaði á sælgæti milli þess sem það talaði um hversu bragðgott það var: „Milky Way er snilld“, „Snickers er best“, „ég ætla að fá mér tvö“ o.s.frv.

Framhald síðar.

%d bloggurum líkar þetta: