Greinasafn merkis: ofbeldi

Takk, stelpur

Ég er gangandi ógn. Í sögulegu tilliti. Ef fólk myndi láta tölfræði stýra fyrstu kynnum sínum myndu stelpur hlaupa þegar ég nálgast. Í frábæru uppistandi bendir grínistinn Louis CK á það hvers lags fífldirfsku stelpur sýna þegar þær fallast á að fara út með strákum. Einar. Að kvöldi til. Hann bendir á að það sé í raun algjör geðveiki.

Karlmenn eru helsta ógn kvenna. Engin dýrategund er jafn líkleg til að lemja, nauðga og drepa konur. Að stelpa samþykki að fara út með strák er jafn galið, tölfræðilega, og ef sami strákur myndi skreppa til Alaska að klappa grábjörnum. Engin skepna hefur beitt jafn margar konur ofbeldi og karlinn. Ekki einu sinni hákarlinn. Og hann er með vígtennur.

En hver er helsta ógn karla? Hjartasjúkdómar — eins og fyrrnefndur Louis bendir á. Semsagt; helsta ógnin slær í brjósti okkar. Við treystum á heilbrigt líferni þó erfðir hafi mest um málið að segja. Ef við hreyfum okkur, og borðum að jafnaði mat sem er ekki ógeðslegur, stóraukum við líkurnar á því að lifa þangað til við hættum að geta skeint okkur.

Konur stýra hins vegar ekki örlögum sýnum jafn auðveldlega. Þeim er ráðlagt að fara á sjálfsvarnarnámskeið, að labba aldrei einar heim, að klæða sig svona en ekki hinsegin, að daðra ekki of mikið, að vera ekki of fullar og svo framvegis.

Þrátt fyrir þetta er ekki að sjá að konur vantreysti karlmönnum, svona almennt. Þær eru enn til í að fara út, heim, í bjór og mat með gaurum sem þær þekkja ekki neitt — og sýna raunar ótrúlegt hugrekki með því. Hugrekki sem heimurinn reiðir sig á því forsendan fyrir framtíð mannkyns er sú að fólk haldi áfram að ríða þegar það vill ríða.

Takk, stelpur. Fyrir hönd mannkyns. Takk fyrir að nenna þessu. Haldið áfram að berjast fyrir því að fá að vera eins og þið viljið vera, án þess að í því felist ábyrgð á gjörðum smámenna. Ef við hættum að halda kjafti um nauðganir og ofbeldi almennt þurfa dætur okkar, eða dætur þeirra, kannski ekki að troða lykli í lófa sér þegar þær asnast til að labba einar heim.

Auglýsingar
Merkt , ,
%d bloggurum líkar þetta: